Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit.

(Mál nr. 6985/2012)

A kvartaði yfir umsögnum heilbrigðiseftirlits og bæjarráðs sveitarfélags um umsókn félags um rekstrarleyfi fyrir veitingastað. A bjó í nágrenni við veitingastaðinn og taldi umsagnirnar byggjast á ófullnægjandi upplýsingum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Eftir að kvörtun A barst lagði hann fram viðbótargögn þar sem m.a. kom fram að bráðabirgðaleyfi viðkomandi félags yrði ekki framlengt en hins vegar hefði nýr rekstraraðili sótt um rekstrarleyfi og gert væri ráð fyrir því að gefið yrði út bráðabirgðaleyfi til hans á meðan beðið væri umsagna um umsókn hans. Af kvörtun A varð ráðið að hún lyti að rekstri veitingastaðarins burtséð frá því hvaða félag færi með reksturinn. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt, með fyrirvara um að A yrði talinn eiga aðild að málinu samkvæmt stjórnsýslulögum, að hann freistaði þess, að fenginni niðurstöðu sýslumanns um veitingu leyfisins, að leita til innanríkisráðuneytisins vegna þess, sbr. 26. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Teldi hann enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins ætti hann þess kost að leita til sín á ný.