Málefni aldraðra.

(Mál nr. 6901/2012)

A kvartaði, fyrir hönd móður sinnar, yfir þeirri fjárhæð sem hún fékk að halda eftir af lífeyri sínum eftir greiðsluþátttöku í dvalarkostnaði á hjúkrunarheimili og að fjárhæðin hefði ekki breyst í mörg ár þrátt fyrir breytingar á neyslukostnaði.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti viðeigandi ákvæði laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og benti á að samkvæmt þeim hefði löggjafinn gert ráð fyrir því að upphæð þeirra tekna, sem vistmaður á stofnun fyrir aldraða má hafa án þess að vera gert að taka þátt í greiðslu dvalarkostnaðar, tæki breytingum í samræmi við breytingar á tekjumörkum ellilífeyris. Umboðsmaður tók síðan fram að starfssvið umboðsmanns Alþingis tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Að því leyti sem kvörtunin lyti að fyrirkomulagi sem löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið afstöðu til brustu því skilyrði til þess að umboðsmaður gæti tekið málið til frekari athugunar.

Hvað varðaði fjárhæðina sem móðir A fékk að halda eftir og það að hún hefði ekki hækkað frá því í lok árs 2008 tók umboðsmaður m.a. fram að af 17. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, leiddi að löggjafinn hefði ákveðið að frítekjumark ellilífeyris, og þar með tekjumark áður en til greiðsluþátttöku í dvalarkostnaði kæmi, skyldi ekki hækka á árinu 2012. Með vísan til a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, voru því ekki heldur skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina að þessu leyti. Með vísan til þessa lauk umboðsmaður athugun sinni á málinu.