Námslán og námsstyrkir. Úthlutunarreglur.

(Mál nr. 6931/2012)

A kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem staðfestur var úrskurður stjórnar LÍN um að synja umsókn hans um námslán vegna skólaársins 2010-2011 á þeim grundvelli að hann væri ríkisborgari þriðja ríkis, þ.e. ríkis utan EES, og ætti því ekki rétt á námslánum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti að í lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, væri ekki fjallað sérstaklega um rétt annarra erlendra ríkisborgara en þeirra sem eru ríkisborgarar á Evrópska efnahagssvæðinu og fjölskyldna þeirra. Þá hefði reglugerð nr. 478/2011, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, þar sem fram kemur að stjórn LÍN sé heimilt í sérstökum tilvikum að leggja sterk tengsl umsækjanda við Ísland að jöfnu við að uppfyllt séu skilyrði lánveitingar samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um rétt námsmanna sem eru íslenskir ríkisborgarar, ekki verið sett þegar mál A hlaut afgreiðslu Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við niðurstöðu málskotsnefndar LÍN í máli A og lauk athugun sinni á því. Hann benti A hins vegar á að þar sem hann væri maki Íslendings kynni hann að hafa öðlast möguleika á því að fá greidd námslán eftir gildistöku reglugerðar nr. 821/2011, um breyting á reglugerð um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 478/2011.

Þá ákvað umboðsmaður að rita mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem hann vakti athygli á því, að í ljósi matskenndra skilyrða reglugerðar nr. 821/2011 um sérstök tilvik og sterk tengsl og jafnframt þar sem sér væri ekki kunnugt um hvort framkvæmd hefði mótast um túlkun ákvæðisins, kynni réttarstaðan að vera sú að maki íslensks ríkisborgara, sem sjálfur væri ekki ríkisborgari í ríki á Evrópska efnahagssvæðinu, nyti minni réttar til námslána hérlendis en maki ríkisborgara annars ríkis á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá væri ekki útilokað að einstaklingur í slíkri stöðu nyti jafnvel, á grundvelli réttarstöðu sinnar sem maki íslensks ríkisborgara, betri réttar til námslána í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins en á Íslandi, kysi maki hans að nýta sér réttindi sín til frjálsrar farar launþega um EES-svæðið.