Samgöngumál. Siglingamál.

(Mál nr. 6991/2012)

A ehf. kvartaði yfir ákvörðun Siglingastofnunar um að synja tveimur bátum, framleiddum af félaginu, um haffærisskírteini.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af kvörtuninni varð ekki annað ráðið en að stjórnsýslukæra A vegna málsins væri enn til meðferðar hjá innanríkisráðuneytinu. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og þar sem stutt var um liðið síðan A ehf. lagði kæruna fram taldi umboðsmaður bresta lagaskilyrði til þess að geta fjallað um þau atriði sem erindið beindist að. Umboðsmaður lauk því málinu en tók fram að þegar endanleg ákvörðun innanríkisráðuneytisins lægi fyrir eða ef meðferð þess drægist úr hófi ætti félagið þess kost að leita til sín á nýjan leik.