Skattar og gjöld. Innheimtuhættir.

(Mál nr. 6964/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að sér hefði ekki borist tilkynning um álagningu opinberra gjalda vegna dánarbús föður síns er lést á árinu 2011. Umboðsmaður skildi kvörtunina á þá leið að A væri ósáttur við það verklag að innheimtuseðill vegna álagningar dánarbús væri sendur á síðasta lögheimili þess sem látinn væri en ekki komið til fyrirsvarsmanns dánarbúsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður hafði haft svipað mál til meðferðar á árinu 2008 og hafði lokið því eftir að ríkisskattstjóri boðaði tilteknar úrbætur í samskiptum embættisins við dánarbú. Í skýringum ríkisskattstjóra til umboðsmanns vegna þessa máls kom fram að komið hefði í ljós að víða hefði ekki verið brugðist nægilega við í samræmi við boðaðar úrbætur og því síðan lýst hvernig stæði til að bregðast við í framhaldinu. Í ljósi þessara viðbragða ríkisskattstjóra taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um kvörtunina og lauk athugun sinni á málinu.