Skipulags- og byggingarmál. Skipulagsmál.

(Mál nr. 6974/2012)

A, B og C leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að umhverfisráðuneytið hefði hafnað því að ógilda ákvarðanir skipulagsyfirvalda varðandi deiliskipulag sem var í gildi í tiltekinni frístundabyggð á árunum 2005 til 2011 og fela hlutaðeigandi sveitarstjórn að ógilda og afturkalla skipulagið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Sveitarfélagið sem í hlut átti hafnaði kröfu A, B og C um ógildingu og afturköllun deiliskipulagsins með bréfi, dags. 28. október 2011. Þeir kærðu þá ákvörðun til innanríkisráðuneytisins sem taldi málið heyra undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála en framsendi það til athugunar Skipulagsstofnunar þar sem kærufrestur til nefndarinnar var liðinn. Í svari Skipulagsstofnunar til A, B og C kom fram að stofnunin teldi hvorki form- né efnisgalla vera á skipulaginu. Þeir lögðu þá fram stjórnsýslukæru hjá umhverfisráðuneytinu sem taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við svör Skipulagsstofnunar eða til að aðhafast frekar í málinu. Umboðsmaður taldi ekki unnt að útiloka að ákvörðun sveitarstjórnarinnar um að hafna kröfu A, B og C hefði verið kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sbr. áðurgildandi ákvæði 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar sem umboðsmanni barst ekki afrit af ákvörðun sveitarstjórnarinnar og gögn um hvernig hún var kynnt gat hann ekki fullyrt um hvort þar hefði skort leiðbeiningar um kæruheimild eða kærufresti, sbr. 2. lið 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og þannig ekki hvort málsaðilunum væri fært að leita með málið til úrskurðarnefndarinnar þrátt fyrir að kærufrestur væri liðinn, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér hins vegar ekki unnt að fjalla um málið og benti þeim á að freista þess að bera málið undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, nú úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 20. gr. laga nr. 131/2011, um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið en tók fram að A, B og C gætu leitað til sín á ný yrðu þeir enn ósáttir eftir að hafa frestað þess að leita til úrskurðarnefndarinnar.