Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6903/2012)

Hinn 24. febrúar 2012 kvartaði A yfir því að innanríkisráðuneytið hefði ekki afgreitt stjórnsýslukæru sína, dags. 11. febrúar 2011, vegna notkunar grunnskóla á tölvukerfi til miðlunar upplýsinga um börn í skólanum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að meðferð málsins hefði lokið með úrskurði, dags. 12. mars 2012, og áliti dags. sama dag. Þar sem kvörtun A laut að töfum á meðferð málsins og það hafði hlotið afgreiðslu taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari afskipta af því og lauk málinu. Hann tók þó fram að ef A teldi sig beittan rangsleitni með niðurstöðunni gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

Umboðsmaður hafði ekki öll gögn málsins undir höndum en þar sem A hafði í júlí 2011 verið tilkynnt um að ráðgert væri að ljúka máli hans í ágúst eða september það ár ritaði hann innanríkisráðherra bréf og benti ráðuneytinu á að gæta þess, hefði það ekki verið gert í máli A, að haga stjórnsýslu sinni í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem fram kemur að stjórnvaldi ber, þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast, að skýra aðila máls frá því, upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.