Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6978/2012)

Hinn 2. apríl 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að hafa ekki borist úrskurður innanríkisráðuneytisins vegna kvörtunar sem hún sendi ráðuneytinu með bréfi, dags. 1. febrúar 2011, varðandi ábyrgð sveitarfélags á láni til fyrirtækis.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins kom fram að ráðuneytið hefði í tilefni af erindi A tekið ráðstafanir sveitarfélagsins í tengslum við lánveitinguna til athugunar á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 en það teldi A hins vegar ekki eiga aðild að málinu og að henni hefði verið tilkynnt sú afstaða ráðuneytisins 8. mars 2012. Þar sem ráðuneytið hafði tekið afstöðu til erindis A og tilkynnt henni um hana taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar og lauk meðferð sinni á málinu.