Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6850/2012)

Hinn 26. janúar 2012 kvartaði A, ábúandi á ríkisjörð, yfir því að hafa ekki borist svör frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu vegna beiðni um leyfi til byggingar mannvirkja á jörðinni, sbr. 14. gr. ábúðarlaga nr. 80/2004. Beiðnin var send ráðuneytinu með bréfi, dags. 22. janúar 2011. Erindið var ítrekað 25. febrúar, 22. ágúst og 20. september 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að brugðist hefði verið við erindi A með bréfi, dags. 18. apríl 2012. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að fjalla frekar um málið en tók fram að ef A væri ósáttur við afgreiðslu ráðuneytisins á erindinu gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.