Útlendingar. Vegabréfsáritun.

(Mál nr. 6966/2012)

A kvartaði yfir synjun á umsókn B um vegabréfsáritun. A hafði aðstoðað B við umsóknina. Af kvörtun A og gögnum málsins varð ráðið að kvörtunin beindist sérstaklega að því að upplýsingar sem Útlendingastofnun veitti A í tengslum við umsóknina hefðu verið villandi og rangar, en þær hefði t.d. verið að finna á heimasíðu stofnunarinnar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Á fundi A með starfsmanni umboðsmanns kom fram að synjunin hefði verið kærð til innanríkisráðuneytisins. Í samræmi við sjónarmið að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og þar sem umboðsmaður taldi að kvörtunarefni A hefði þýðingu fyrir kærumálið taldi hann að niðurstaða innanríkisráðuneytisins yrði að liggja fyrir áður en hann gæti tekið málið til frekari athugunar. Hann taldi sér því ekki unnt að taka málið til meðferðar að svo stöddu en tók fram að teldi A sig enn beitta rangindum að fenginni úrlausn ráðuneytisins gæti hún leitað til sín að nýju.