Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga.

(Mál nr. 6968/2012)

A kvartaði yfir niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli þar sem staðfest var ákvörðun Bankasýslu ríkisins þess efnis að synja A um aðgang að upplýsingum um nöfn, heimilisföng og starfsheiti þeirra umsækjenda um starf forstjóra stofnuninnar sem drógu umsókn sína til baka eftir að umsóknarfresti lauk. Þá vísaði nefndin frá kæru A að því leyti er hún laut að skyldu Bankasýslunnar til að birta að eigin frumkvæði lista yfir alla umsækjendur strax að umsóknarfresti loknum og að synjun stofnunarinnar á að veita Ríkisútvarpinu aðgang að umræddum lista. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Að virtri þeirri meginreglu upplýsingalaga nr. 50/1996 að stjórnvöldum sé almennt ekki skylt að eiga sjálf frumkvæði að því að veita almenningi aðgang að upplýsingum og orðalagi 4. tölul 4. gr. laganna, sem af varð ráðið að það hefði ekki verið ætlun löggjafans að víkja frá þeirri meginreglu varðandi nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda um opinber störf, taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál að skylda til að veita aðgang að slíkum upplýsingum yrði því aðeins virk að fram kæmi beiðni um aðgang að slíkum upplýsingum. Umboðsmaður taldi jafnframt ekki forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu nefndarinnar að sá sem dregið hefur umsókn sína um opinbert starf til baka teljist upp frá því ekki lengur umsækjandi um hlutaðeigandi starf í skilningi 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Þá varð ekki annað séð en að umsóknir þær sem málið sneri einkum að hefðu verið dregnar til baka áður en listi yfir umsækjendur var afhentur A og ekki varð séð að dráttur hefði orðið á afgreiðslu á beiðni hans um afhendingu listans. Með tilliti til hagsmuna þeirra sem drógu umsóknir sínar til baka taldi umboðsmaður enn fremur að hugsanleg frávik af hálfu Bankasýslunnar frá því að afhenda listann eins fljótt og kostur var frá því að beiðnin kom fram gæti ekki leitt til þess að A ætti kröfu á að fá upplýsingar um þá sem hugsanlega hefðu dregið umsóknir sínar til baka eftir að beiðnin barst en áður en listinn var afhentur. Samkvæmt þessu taldi umboðsmaður sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu úrskurðarnefndarinnar að Bankasýslunni hefði ekki verið skylt á grundvelli 4. tölul. 4. gr. upplýsingalaga að veita A aðgang að upplýsingum um umsækjendur um starf forstjóra Bankasýslunnar sem dregið höfðu umsóknir sínar til baka þegar listi yfir umsækjendur um framangreint starf var afhentur A. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa, á grundvelli þeirra gagna sem fyrir hann höfðu verið lögð, tilefni til að draga í efa þá forsendu nefndarinnar að umræddar umsóknir hefðu verið dregnar til baka áður en listinn var afhentur A. Af gögnum málsins varð enn fremur ekki ráðið að synjun Bankasýslu ríkisins um að veita Ríkisútvarpinu aðgang að upplýsingunum hefði varðað hagsmuni A með þeim hætti að hann gæti átt aðild að málinu hjá úrskurðarnefndinni. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugsemdir við þá niðurstöðu nefndarinnar að vísa kæru A frá að því leyti. Þar sem það er ekki hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál samkvæmt 14. gr. upplýsingalaga að taka almenna afstöðu til þess hvernig túlka beri ákvæði laganna heldur að leysa úr því í hverju einstöku máli sem borið er undir nefndina hvort synjun stjórnvalds í tilteknu tilviki um að veita aðgang að upplýsingum hafi verið í samræmi við lög taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við frávísun á kæru A að því leyti sem hún laut að skyldu Bankasýslunnar til að birta lista yfir umsækjendur um starf forstjóra Bankasýslunnar strax að liðnum umsóknarfresti. Það varð niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að gera athugsemdir við forsendur eða niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli A. Hann ákvað því að ljúka athugun sinni á máli hans en tók fram að athugunin hefði takmarkast við úrlausn úrskurðarnefndarinnar á kæru A. Hann hefði hins vegar ekki tekið afstöðu til þeirrar ráðstöfunar stjórnar Bankasýslu ríkisins að veita þeim sem höfðu lagt fram umsókn um starfið stuttan frest til að draga umsóknir sínar til baka.