Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6818/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir starfsháttum Tryggingastofnunar ríkisins (TR) vegna milligöngu sem stofnunin hafði fyrir hana um umsókn um örorkulífeyri í öðru Norðurlandaríki á grundvelli búseturéttar. A taldi TR ekki hafa sinnt upplýsinga- og leiðbeiningaskyldu gagnvart sér. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður Alþingis taldi það ekki leiða af óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar um leiðbeiningarskyldu að íslenskum stjórnvöldum væri skylt að veita leiðbeiningar um erlend lög og reglur þegar fyrir lægi að það væri hlutverk erlends stjórnvalds að taka ákvörðun í máli. Það væri í höndum erlenda stjórnvaldsins nema annað væri tekið fram í milliríkjasamningum, lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum. Ákvæði um slíka skyldu væri hvorki að finna í Norðurlandasamningi um almannatryggingar, sbr. lög nr. 66/2004, né í framkvæmdasamningi við Norðurlandasamninginn eða viðaukum við hann sem birtir væru í fylgiskjali við reglugerð nr. 96/2006. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við að TR veitti ekki upplýsingar um möguleg réttindi í öðrum löndum og að umsækjandi þyrfti þar af leiðandi sjálfur að afla upplýsinga um gildandi rétt í umsóknarríkinu eða að upplýsingagjöf á heimasíðu stofnunarinnar væri hagað með þeim hætti að veita eingöngu upplýsingar um hvar upplýsingar um reglur annarra landa væri að finna, almennar upplýsingar um milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að og tengla á heimasíðu erlendra stofnana sem gætu veitt nánari upplýsingar og almennar upplýsingar um örorkulífeyrisgreiðslur milli landa. Að lokum taldi umboðsmaður, miðað við þau gögn málsins sem hann hafði undir höndum, að hann hefði ekki forsendur til að gera athugasemdir við þær skýringar að ekki yrði séð að starfsfólk TR hefði haft ástæðu til að ætla að gögnum sem fylgdu umsókn A væri ábótavant. Hann benti A á að af hún teldi svo vera gæti hún komið þeim gögnum eða upplýsingum á framfæri við stjórnvöld í umsóknarríkinu.