Atvinnleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 7060/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að hafa ekki fengið greiddar út atvinnuleysisbætur 1. júní 2012 og yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði og endurkrefja hana um bætur sem hún fékk greiddar vegna tiltekins tímabils. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í erindi A kom ekki fram að hún hefði borið ákvörðun Vinnumálastofnunar í málinu undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 11. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því bresta lagaskilyrði til að geta fjallað um kvörtun A að svo stöddu. Eins og á stóð í málinu taldi umboðsmaður jafnframt að ekki væri tilefni til þess að taka starfsemi eða málsmeðferð Vinnumálastofnunar til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Vegna athugasemda í kvörtun A upplýsti umboðsmaður hana enn fremur um að hann hefði nú þegar til meðferðar athugun sem lyti að málshraða hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Þá vakti umboðsmaður athygli A á að ef hún teldi skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 vera fyrir hendi í máli sínu gæti hún óskað eftir endurupptöku þess hjá Vinnumálastofnun og þá eftir atvikum borið ákvörðun stofnunarinnar undir úrskurðarnefndina. Að lokum tók umboðsmaður fram að ef A kysi að leita með erindi sitt til úrskurðarnefndarinnar og teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu nefndarinnar ætti hún þess kost að leita til sín á nýjan leik og jafnframt að ef óhóflegar tafir yrðu á meðferð máls hennar hjá nefndinni gæti hún einnig leitað til sin með sérstaka kvörtun.