Börn.

(Mál nr. 7029/2012)

A kvartaði yfir því að eftir andlát barnsföður síns ætti hún ekki kost á greiðslum vegna kostnaðar við fermingu dóttur þeirra og taldi ósanngjarnt að þurfa að bera þann kostnað ein. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni í málinu með bréfi, dags. 21. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður rakti að í lögum væri ekki að finna heimildir fyrir Tryggingastofnun ríkisins til að greiða styrki eða framlög vegna tilfallandi kostnaðar, s.s. vegna fermingar, til þeirra sem fá greiddan barnalífeyri með barni sem á látið foreldri. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingis hefði sett. Því taldi umboðsmaður ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að geta fjallað um kvörtun A að því leyti sem hún beindist að efni gildandi löggjafar. Umboðsmaður benti A hins vegar á að samkvæmt reglum heimasveitarfélags henni væri heimilt að veita fjárhagsaðstoð til tekjulágra barna vegna kostnaðar við fermingu. Hún gæti því freistað þess að óska eftir slíkri aðstoð. Niðurstöðu um það væri unnt að skjóta til úrskurðarnefndar félagþsjónustu og húsnæðismála í samræmi við ákvæði laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ef hún kysi að fara þá leið ætti hún þess síðan kost, teldi hún enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar, að leita til sín á nýjan leik.