A kvartaði yfir því að fjármálafyrirtæki hefði breytt láni sem hann var skuldari að í íslenskt verðtryggt lán. A fór þess á leit að umboðsmaður Alþingis veitti sér leiðbeiningar um hvernig hann ætti að snúa sér í málinu og æskti jafnframt álits á nokkrum tilgreindum álitaefnum. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með vísan til laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 2/1995, um hlutafélög, taldi umboðsmaður að kvörtun A beindist að ákvörðunum og starfsemi einkaaðila og fæli ekki í sér beitingu opinbers valds sem þeim aðila hefði verið fengið að lögum. Í ljósi þess og með vísan til 2. og 3. gr. laga taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði fyrir því að taka mál A til frekari meðferðar. Hann benti A hins vegar á að honum kynni að vera fær sú leið að vekja athygli umboðsmanns skuldara, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, og Fjármálaeftirlitsins, sbr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, á vinnubrögðum fjármálafyrirtækisins.