Lögheimili.

(Mál nr. 6905/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir breytingu á skráningu á lögheimili sínu í þjóðskrá. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni með bréfi, dags. 18. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera erindi sitt undir innanríkisráðuneytið, sbr. lög nr. 77/2010, um sameiningu Þjóðskrár og Fasteignaskrár Íslands, og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en hann leitaði til sín með kvörtun vegna málsins. Umboðsmaður lauk því meðferð sinni á kvörun A en tók fram að hann gæti leitað til sín á nýjan leik að fengnum viðbrögðum innanríkisráðuneytisins væri hann enn ósáttur. Umboðsmaður ákvað einnig að rita Þjóðskrá Íslands bréf þar sem hann gerði athugasemd við að A hefði ekki verið gerð grein fyrir breytingu á lögheimili hans fyrr en töluvert eftir að ákvörðun um hana var tekin og því hefði ekki verið gætt að birtingarreglu 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá taldi umboðsmaður að skort hefði á að A væri leiðbeint um kæruheimild til innanríkisráðuneytisins í samræmi við 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður sendi innanríkisráðuneytinu afrit af bréfum sínum til Þjóðskrár Íslands og A til upplýsingar og þá í ljósi fyrri samskipta sinna við innanríkisráðuneytið vegna almennra starfshátta stofnunarinnar.