A kvartaði yfir þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að hætta rannsókn á kæru hans fyrir ætluð refsiverð brot lögreglu gagnvart sér samkvæmt 132. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem fram kemur að ef opinber starfsmaður, sem getið er um í 130. gr. eða 131. gr. laganna, gætir ekki af ásetningi eða stórfelldu gáleysi lögmætra aðgerða við meðferð máls eða úrlausn, handtöku, hald, leit, fangelsan eða framkvæmd refsingar, eða við beitingu annarra áþekkra úrræða, þá skuli hann sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, nema brot hans varði þyngri refsingu að lögum. Lögreglan hafði fjarlægt bifreiðar af lóð A gegn hans vilja í tilefni af kvörtunum aðila sem áttu umferðarrétt um lóðina og varð hann að leysa bifreiðarnar út gegn greiðslu gjalds. Samkvæmt 110. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er lögreglu heimilt að flytja eða láta flytja brott ökutæki sem stendur á einkalóð eða opinberri lóð þannig að valdi eiganda eða umráðamanni hennar tjóni eða óþægindum eða gegn banni hans. Hins vegar skal ökutæki sem stendur á svæði sem ekki er ætlað til almennrar umferðar því aðeins flutt á brott að eigandi eða umráðamaður lóðar krefjist þess. Ríkissaksóknari hætti rannsókn málsins á grundvelli 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, með vísan til þess að ekki væri fyrir hendi grunur um refsiverða háttsemi af hálfu lögreglumannanna. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður tók fram að í ákvörðun ríkissaksóknara í máli A hefði m.a. verið vísað til þess að gögn málsins bentu til þess að í málinu hefði verið deilt um notkun lóðarinnar og að lögreglumenn hefðu jafnframt mátt ráða af aðstæðum að svæðið sem bifreiðarnar voru á væri ætlað til almennrar umferðar. Með hliðsjón af þeim vafa sem hefði verið uppi í málinu um heimildir til notkunar lóðarinnar og heimildum lögreglu samkvæmt 110. gr. umferðarlaga fengi ríkissaksóknari ekki séð að lögreglumennirnir hefðu í umræddum tilvikum brotið gegn 132. gr. almennra hegningarlaga. Að virtum gögnum málsins og atvikum þess varð það niðurstaða umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að fullyrða að mat ríkissaksóknara á því að á hefði skort tilefni til að hefja rannsókn í málinu, hefði verið óforsvaranlegt. Umboðsmaður lauk athugun sinni á kvörun A að því leyti sem hún beindist að ríkissaksóknara. Umboðsmaður ritaði innanríkisráðuneytinu hins vegar bréf þar sem hann kom þeirri ábendingu á framfæri, með vísan til þess að innanríkisráðherra væri æðsti yfirmaður lögreglunnar, sbr. 14. gr. stjórnarskrárinnar, 3. tölul. B-liðar 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, og 4. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og gæti á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda tekið almennar kvartanir og athugasemdir vegna starfa lögreglumanna til athugunar og jafnframt þess að í lögskýringargögnum að baki lögum nr. 51/1985, um ríkislögmann, kæmi fram að ákvörðun um viðurkenningu á bótaskyldu lægi hjá þeim aðilum sem krafa beindist að, að hann fengi ekki annað séð en að tilefni hefði verið til þess að ráðuneytið tæki afstöðu til bótakröfu sem A hafði lagt fram hjá ráðuneytinu vegna málsins, eftir atvikum að fengnu áliti ríkislögmanns, í stað þess að beina því að A að leggja kröfuna fram hjá ríkislögmanni. Umboðsmaður tilkynnti A jafnframt að yrði hann ósáttur við afgreiðslu ráðuneytisins á málinu eða ef óhóflegar tafir yrðu á henni gæti hann leitað til sín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.