Menntamál. Háskólar.

(Mál nr. 7055/2012)

A kvartaði yfir því að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefði vísað frá kæru hennar á grundvelli 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 1152/2006, um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga um háskóla nr. 63/2006, þar sem m.a. kemur fram að máli háskólanema verði ekki skotið til nefndarinnar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemandans. A hafði beint erindi sínu til forseta fræðasviðs við Háskóla Íslands sem tók síðan sjálfur ávörðun í málinu þrátt fyrir að honum hefði, að mati áfýjunarnefndarinnar, ekki mátt dyljast erindi A fæli í sér ósk um endurskoðun ákvörðunar viðkomandi deildar í samræmi við þær kæruleiðir er A hafði verið bent á með ákvörðun deildarinnar í máli hennar. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Eftir að A leitaði til umboðsmanns með kvörtun sína lagði hún erindi sitt að nýju fyrir hjá Háskóla Íslands. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka mál A til frekari umfjöllunar fyrr en stjórn fræðasviðsins hefði lokið meðferð sinni á því og áfýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefðu tekið málið fyrir. Hann tók þó fram að ef A teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu stjórnvalda í málinu eða að meðferð þeirra á málinu hefði verið ábótavant eða farið í bága við lög gæti hún leitað til sín á ný.