Opinber innkaup.

(Mál nr. 7042/2012)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Ríkiskaupa um að hafna tilboði félagsins við nánar tilgreint útboð á vegum stofnunarinnar á grundvelli 2. mgr. 47. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, þar sem fram kemur að heimilt sé að útiloka fyrirtæki frá opinberum samningi ef eitthvert þeirra atriða sem talin eru upp í stafliðum ákvæðisins á við um það, en meðal þessara atriða er að bú fyrirtækis sé undir gjaldþrotaskiptum eða félagi hafi verið slitið, það fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða sé í annarri sambærilegri stöðu. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar sem byggt er á því í lögum nr. 84/2007 að unnt sé að skjóta ákvörðunum stjórnvalda sem teknar eru á grundvelli laganna til kærunefndar útboðsmála taldi umboðsmaður, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, ekki væru lagaskilyrði fyrir því að taka kvörtunina til frekari meðferðar.