Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 6877/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að maður sem starfaði sem lögreglumaður og hún hafði kært fyrir kynferðisbrot gegn barni sínu hefði ekki verið leystur frá störfum á meðan rannsókn málsins fór fram hjá lögreglu. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Kvörtun A fylgdu afrit af gögnum varðandi samskipti hennar og réttargæslumanns barnsins við innanríkisráðuneytið, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu o.fl. vegna málsins. Með bréfi innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins var staðfest að ráðuneytið hefði tekið erindið til efnislegrar meðferðar og að A mæti vænta svara fljótlega eftir að frestur ríkislögreglustjóra til þess að veita ráðuneytinu skýringar rynni út. Þar sem málið var enn til meðferðar í stjórnsýslunni taldi umboðsmaður ekki rétt að aðhafast frekar að svo komnu máli. Hann lauk athugun sinni á málinu en tók fram að A gæti leitað til sín á ný að fenginni endanlegri afstöðu innanríkisráðuneytisins ef hún teldi sig enn órétti beitta og að hún gæti einnig leitað til sín að nýju ef frekari tafir yrðu á meðferð málsins.