Samgöngumál. Loftferðir.

(Mál nr. 7006/2012)

A kvartaði yfir því að Isavia ohf. hefði án tilkynningar fellt úr gildi aðgangsheimild hans að aksturshliði inn í fluggarða þar sem starfsstöð hans var staðsett. Í kvörtuninni var því nánar lýst að A hefði sótt námskeið í flugvernd í þeim tilgangi að fá akstursheimildina sem hefði átt að gilda í fimm ár. Hann hefði keypt fjarstýringu að aksturshliðinu eftir námskeiðið en nú væri hún ekki lengur virk og sér hefði verið tjáð að hann yrði að kaupa nýja fjarstýringu til að halda aðganginum. A tók fram að hann fengi ekki séð að hann ætti að greiða fyrir aðgangslykla nema e.t.v. tryggingargjald. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt, væri það ætlun A að gera almennar athugasemdir við framkvæmd Isavia ohf. í máli sínu og almennt við gjaldtöku fyrir aðgangslykla að aksturshliðum, að áður en þær kæmu til nánari athugunar hjá sér lægi fyrir afstaða Flugmálastjórnar Íslands og síðar innanríkisráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 985/2011, um flugvernd, sbr. 2. mgr. 70. gr. og 70. gr. d., sbr. 145. gr. laga nr. 60/1998, um loftferðir, og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 100/2006, um Flugmálastjórn Íslands, sbr. 7. tölul. K-liðar 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Þá taldi umboðsmaður að ef það væri skilningur A að hann hefði verið sviptur aðgangsheimild sinni væri rétt hann leitaði fyrst til innanríkisráðuneytisins með stjórnsýslukæru vegna þess, sbr. 59. gr. reglugerðar nr. 985/2011. Að lokum tók umboðsmaður fram að hann hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort athugasemdir A væru tækar til efnislegrar meðferðar hjá Flugmálastjórn Íslands eða innanríkisráðuneytinu en væru úrlausnir þessara stjórnvalda á þá leið að svo væri ekki væri A fært að bera þær undir sig á sama hátt og efnisúrlausnir þeirra.