Samgöngumál. Vegamál.

(Mál nr. 6893/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem ákvörðun Vegagerðarinnar um að synja um viðhald á heimreið var staðfest á þeim grundvelli að hún teldist ekki til þjóðvega. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður benti á að samkvæmt a-lið 1. mgr. 5. gr. vegalaga nr. 80/2007 væri Vegagerðinni aðeins skylt að annast veghald þjóðvega og fyrir lægi að umræddur vegur teldist ekki til slíkra vega. Þá lá fyrir að A hafði verið leiðbeint um að hann gæti lagt fram umsókn um að vegurinn yrði flokkaður sem héraðsvegur í skilningi reglugerðar nr. 774/2010. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við úrskurð innanríkisráðuneytisins að því leyti og lauk athugun sinni á málinu. Hann tók þó fram að ef A legði fram umsókn um nýjan héraðsveg og yrði ósáttur við ákvörðun Vegagerðarinnar þar að lútandi væri honum frjálst, eftir að hafa borið þá ákvörðun undir innanríkisráðuneytið, að leita til sín með nýja kvörtun þar að lútandi.