Sjávarútvegsmál.

(Mál nr. 6464/2011)

A kvartaði yfir ákvæðum 3. gr. reglugerðar nr. 557/2007, um afladagbækur, sem leggja þá skyldu á eigendur báta sem eru yfir tilteknum stærðarmörkum að halda rafræna afladagbók í stað bóklegrar. A taldi það fyrirkomulag að eigendur báta yfir stærðarmörkunum ættu ekki kost á undanþágu frá þessari reglu fela í sér mismunun sem ekki byggðist á málefnalegum forsendum. Í málinu lá fyrir úrskurður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins í máli A þar sem staðfest var ákvörðun Fiskistofu um að veita fyrirtækinu eingöngu tímabundna undanþágu til að halda afladagbók á bókarformi vegna sérstakra aðstæðna, en með þeirri breytingu að A var veittur viðbótarfrestur til aðlögunar. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður taldi að með 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, hefði löggjafinn veitt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu svigrúm til að útfæra nánar reglur um form afladagbóka, enda yrði það fyrirkomulag sem yrði fyrir valinu ekki talið verulega íþyngjandi m.a. um kostnað fyrir útgerðaraðila og þá með tilliti til þess að í 17. gr. kemur fram að Fiskistofa leggi afladagbækurnar til. Umboðsmaður taldi falla undir þetta svigrúm að ákveða hvort þær kröfur yrðu gerðar til fiskiskipa yfir ákveðnum stærðarmörkum að afladagbækurnar skyldi færa með hóflegum og almennum tölvubúnaði, enda væri þar um að ræða búnað sem almennt væri nú notast við jafnt á heimilum og í atvinnurekstri. Hann taldi því að 3. gr. reglugerðar nr. 557/2007, ætti sér fullnægjandi lagastoð. Í skýringum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á þeim sjónarmiðum sem lágu að baki því að veita eingöngu undanþágu frá reglunum vegna báta undir tilteknum stærðarmörkum kom fram að í tillögum Fiskistofu um viðmið sem lögð skyldu til grundvallar undanþágunni hefði verið vísað til þess að í minni bátum væri erfitt að koma fyrir tölvum án þess að þær yrðu fyrir rakaskemmdum eða öðru hnjaski. Að virtu því lagaumhverfi sem gildir um afladagbækur, þar á meðal svigrúmi ráðherra til mats, fékk umboðsmaður ekki annað verða séð en að þessi sjónarmið byggðust á málefnalegum forsendum. Hann taldi því ekki að sú afstaða ráðuneytisins að undanþáguheimild 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 557/2007 byggðist á málefnalegum forsendum væri í ósamræmi við lög. Umboðsmaður tók í því sambandi fram að Fiskistofa væri sérhæft stjórnvald og að hann hefði ekki forsendur til að taka afstöðu til þess sérfræðilega mats sem lagt hefði verið til grundvallar viðmiðunum. Þá tók umboðsmaður fram að hann fengi ekki séð að með undanþáguákvæðinu hefði verið brotið gegn jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrár. Að lokum taldi umboðsmaður, m.a. með tilliti til þess að Fiskistofa veitti A tímabundna undanþágu frá skyldu til að halda rafræna afladagbók vegna sérstakra aðstæðna, sbr. 12. gr. reglugerðarinnar, og að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið framlengdi undanþáguna með úrskurði sínum, að hann hefði ekki forsendur til annars en að telja að í málinu hefði verið gætt meðalhófs, enda hefði því ekki verið haldið fram að skipverjum hefði verið ómögulegt að tileinka sér nauðsynlega þekkingu á þeim tíma sem undanþágan var í gildi og þá eftir atvikum að A hefði óskað eftir frekari fresti af þeim sökum.