Skattar og gjöld. Vatnsgjald.

(Mál nr. 7004/2012)

Sóknarnefnd leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir innheimtu Orkuveitu Reykjavíkur á vatns- og fráveitugjöldum. Í kvörtuninni kom fram að áður hefði hvorugt gjaldanna verið innheimt enda hefði kirkjan sjálf lagt sína fráveitu og tengst vatnsveitu staðarins. Við sameiningu hreppa hefðu mannvirkin verið afhent sveitarfélaginu til eignar og umsjár í góðri trú og við síðari sameiningu sveitarfélaga hefðu þau orðið eign nýs sveitarfélags sem hefði framselt þau Orkuveitu Reykjavíkur. Gjöldin hefðu nú hækkað um 48% frá upphafi árs 2011 en þær upplýsingar fengist hjá Orkuveitu Reykjavíkur að engar heimildir væru til ívilnana eða afslátta. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 8. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að áður en athugasemdir varðandi innheimtu Orkuveitu Reykjavíkur á vatns- og fráveitugjöldum kæmu til nánari athugunar hjá sér lægi fyrir afstaða innanríkisráðuneytisins til innheimtu vatnsgjaldsins, sbr. 2. og 4. gr. laga nr. 32/2004, um vatnsveitur sveitarfélaga og 109. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála til fráveitugjaldsins, sbr. 22. gr. laga nr. 9/2009, um uppbyggingu og rekstur fráveitu. Umboðsmaður tók fram að hann hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort athugasemdir þess eðlis sem fælust í erindinu væru að lögum tækar til efnislegrar meðferðar hjá sveitarstjórn og innanríkisráðuneytinu annars vegar og úrskurðarnefndinni hins vegar. Yrðu úrlausnir beggja stjórnvalda á þá leið að svo væri ekki væri sóknarnefndinni að öðru jöfnu fært að bera þær undir umboðsmann á sama hátt og efnisúrlausnir þeirra.