Sveitarfélög.

(Mál nr. 7061/2012)

Hinn 13. júní 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir þeirri afstöðu innanríkisráðuneytisins að hún teldist ekki hafa aðilastöðu í athugun sem ráðuneytið hóf á lánveitingum sveitarfélags á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 í tilefni af erindi hennar þar að lútandi. Umboðsmaður Alþingis lauk meðferð sinni á málinu með bréfi, dags. 21. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. A hafði verið tilkynnt um að ráðuneytið teldi hana ekki eiga aðild að málinu með bréfi, dags. 8. mars 2011. Því var ljóst að kvörtun A til umboðsmanns beindist að athöfn stjórnvalds sem átti sér stað utan ársfrests þess sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, hvort sem litið væri svo að hún hefði borist umboðsmanni 2. apríl 2012, en þá hafði A lagt fram kvörtun yfir því að henni hefði ekki borist úrskurður ráðuneytisins í máli sveitarfélagsins, eða 13. júní 2012. Því brustu lagaskilyrði til þess að umboðsmaður gæti tekið erindið til athugunar. Umboðsmaður tók fram að þrátt fyrir að í tilkynningu innanríkisráðuneytisins til hlutaðeigandi sveitarfélags í ágúst 2011 hefði komið fram að málið yrði tekið til skoðunar á grundvelli 103. gr. sveitarstjórnarlaga breytti það ekki þeirri niðurstöðu að athöfn stjórnvaldsins félli utan ársfrestsins. Ástæða þess var sú að í samskiptum ráðuneytisins og A hafði komið fram að þar hefðu átt sér stað mistök og að málið væri enn til skoðunar á grundvelli 102. gr., en ekki 103. gr., laganna. Þá hefði því bréfi ekki verið beint til A heldur til sveitarfélagsins.