Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6684/2011)

Hinn 17. október 2011 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að sér hefði ekki borist svar við erindi til velferðarráðuneytisins sem varðaði þá ákvörðun starfsmanns Vinnumálastofnunar að synja honum um aðstoð við að sækja um nánar tilgreint starf. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í skýringum velferðarráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins, dags. 21. maí 2012, kom fram að fyrir mistök hefði erindi A verið sett í rangan farveg en 18. maí 2012 hefði verið tekin ákvörðun um að framsenda það til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. A hefði verið upplýstur um þá afgreiðslu málsins sama dag. Umboðsmaður taldi því rétt að ljúka athugun sinni á málinu en tók fram að ef afgreiðsla nefndarinnar á máli A drægist á langinn gæti hann leitað til sín á ný vegna þess. Þá gæti hann leitað til sín að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar teldi hann þá á rétt sinn hallað. Umboðsmaður ritaði jafnframt bréf til velferðarráðherra þar sem hann kom á framfæri ábendingu um að þegar mál bærist stjórnvaldi til úrlausnar yrði að leggja mat á erindið svo fljótt sem unnt væri, s.s. með tilliti til þess hvort það ætti að framsenda öðru stjórnvaldi. Þá gerði umboðsmaður athugasemdir við að ítrekaðri fyrirspurn sinni um meðferð erindisins hefði fyrst verið svarað sex mánuðum eftir að upplýsinganna var óskað og tæpum tíu mánuðum frá því að erindi A barst ráðuneytinu. Umboðsmaður taldi þá málsmeðferð velferðarráðuneytisins ekki forsvaranlega og kom þeirr ábendingu á framfæri að sjónarmið í bréfi hans yrðu höfð í huga við meðferð hliðstæðra mála og jafnframt við fyrirhugaða endurskoðun verkferla innan ráðuneytisins.