Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6695/2011 )

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferðartíma Samkeppniseftirlitsins í tveimur kvörtunarmálum félagsins. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af skýringum Samkeppniseftirlitsins til umboðsmanns í tilefni af almennri fyrirspurn sem umboðsmaður hafði þegar beint til stofnunarinnar vegna málsmeðferðartíma hennar taldi hann ljóst að Samkeppniseftirlitið væri meðvitað um vanda sem uppi væri hjá sér og leitaði leiða til að bregðast við honum. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast gagnvart Samkeppniseftirlitinu að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, eða í tilefni af máli A ehf. og lauk athugun sinni á því. Í ljósi eftirlitsskyldna efnahags- og viðskiptaráðuneytisins á þessu málefnasviði ákvað umboðsmaður hins vegar að rita ráðuneytinu bréf að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, og óska upplýsinga um hvort ráðuneytið hefði haft upplýsingar um þá stöðu sem Samkeppniseftirlitið væri í og þá hvort lagt hefði verið mat á þá stöðu, hvort gripið hefði verið til einhverra aðgerða af því tilefni og þá hverra. Að sama skapi óskaði umboðsmaður þess, hefði ráðuneytið ekki haft upplýsingar um stöðu stofnunarinnar, að sér yrði gerð grein fyrir hvort það teldi rétt að bregðast við með einhverjum hætti.