Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7018/2012)

Hinn 14. maí 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að velferðarráðuneytið og Persónuvernd hefðu ekki komist að niðurstöðu í málum sem höfðu verið til meðferðar hjá þeim um nokkurra mánaða skeið. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 29. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Mál A í velferðarráðuneytinu varðaði viðbrögð landlæknis við kvörtun A yfir tilteknum heilbrigðisstarfsmanni. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að ráðuneytið hefði mælst til þess að landlæknir endurskoðaði niðurstöðu sína í málinu. Þegar niðurstaða landlæknis lægi fyrir yrði tekin ákvörðun um hvort tilefni væri til frekari aðgerða af hálfu ráðuneytisins. Í skýringum Persónuverndar til umboðsmanns vegna þess máls sem A átti þar til meðferðar kom fram að leyst hefði verið úr málinu með úrskurði, dags. 17. janúar 2012, varðandi tiltekna meðferð persónuupplýsinga um hann, með ákvörðun, dags. 30. maí 2012, sem varðaði meðferð persónuupplýsinga á tiltekinni heilbrigðisstofnun og með því að framsenda erindi A að hluta til landlæknisembættisins. Í ljósi skýringa velferðarráðuneytisins og Persónuverndar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar í málum A að svo stöddu. Hann lauk því athugun sinni á þeim en tók fram að ef A væri ósáttur við það hvernig leyst hefði verið úr málinu af hálfu Persónuverndar eða teldi, að fenginni endanlegri niðurstöðu velferðarráðuneytisins, enn á rétt sinn hallað ætti hann þess kost að leita til sín á nýjan leik með sérstakar kvartanir þar að lútandi.