Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7020/2012)

Hinn 10. maí 2012 leituðu A og B til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að innanríkisráðuneytið hefði ekki enn kveðið upp úrskurð í kærumáli vegna synjunar sýslumanns á beiðni um útgáfu könnunarvottorðs í tilefni af fyrirhuguðum hjúskap þeirra. A og B lögðu kæruna fram 29. nóvember 2011. Móttaka kærunnar var staðfest 7. desember það ár og var þá fyrirhugað að kveða upp úrskurð ekki síðar en í mars 2012. A og B höfðu spurst fyrir um meðferð og afgreiðslu málsins 22. febrúar og 23. apríl 2012 en ekki fengið svör. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að áætlað væri að kveða upp úrskurð ekki síðar en 17. júlí 2012 og að A og B hefðu verið upplýst um það símleiðis. Umboðsmaður taldi því rétt að ljúka athugun sinni á málniu en tók fram að yrðu frekari tafir á afgreiðslu málsins gætu A og B leitað til sín að nýju. Þá gætu þau leitað til sín ef þau teldu enn á rétt sinn hallað að fengnum úrskurði ráðuneytisins í málinu. Að lokum ákvað umboðsmaður að rita innanríkisráðherra bréf þar sem fram kom að það hefði verið í betra samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og þá almennu reglu að svara erindum borgaranna nema svars sé ekki vænst að bregðast við fyrirspurnum A og B um hvenær úrskurðar í málinu væri að vænta. Umboðsmaður kom því þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að betur yrði gætt að þessu við meðferð hliðstæðra mála í framtíðinni.