Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7036/2012)

Hinn 29. maí 2012 kvartaði A yfir því að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefði ekki kveðið upp úrskurð í máli sem varðaði synjun sveitarfélags á umsókn hans um húsaleigubætur. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í skýringum úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála til umboðsmanns kom fram að nefndin hefði úrskurðað í málinu 25. maí 2012, fellt ákvörðunina úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar meðferðar. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef óhæfilegar tafir yrðu á nýrri meðferð málsins hjá sveitarfélaginu eða eftir atvikum úrskurðarnefndinni gæti hann leitað til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Þá ætti hann þess jafnframt kost, teldi hann á rétt sinn hallað að fenginni endanlegri niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í málinu, að leita til sín á nýjan leik.