Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7050/2012)

Hinn 6. júní 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að innanríkisráðuneytið hygðist ekki kveða upp úrskurð í máli sem varðaði umsókn A um launað námsleyfi í starfi hennar hjá sveitarfélagi fyrr en haustið 2012. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um málið voru aðeins liðnar tæpar tvær vikur frá því að frestur sem innanríkisráðuneytið veitti sveitarfélaginu til að koma að athugasemdum vegna málsins rann út þar til kvörtun A barst umboðsmanni. Þá lá fyrir að ráðuneytið hafði tilkynnt A um hvenær til stæði að afgreiða málið. Í ljósi þess farvegs sem málið var í taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess með hliðsjón af málshraðareglu stjórnsýslulaga að taka það til frekari skoðunar að sinni. Hann lauk því meðferð sinni á málinu en tók fram að ef sú fyrirætlun ráðuneytisins um að úrskurða í málinu haustið 2012 gengi ekki eftir gæti hún leitað til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun.