Svör við erindum. Rökstuðningur eða skýringar.

(Mál nr. 7003/2012)

A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að hafa ekki fengið svör við beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun um ráðningu í starf leikskólastjóra. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í skýringum hlutaðeigandi sveitarfélags til umboðsmanns kom fram að A og B hefði verið sendur rökstuðningur með bréfi, dags. 2. maí 2012. Jafnframt barst tölvubréf frá A og B þar sem fram kom að þær væru ósáttar við rökstuðninginn og hygðust fara fram á frekari rökstuðning. Lög nr. 85/1997 gera almennt ekki ráð fyrir því að umboðsmaður fjalli um mál sem eru til meðferðar hjá stjórnvöldum. Þar sem A og B áttu enn í samskiptum við sveitarfélagið vegna ákvörðunarinnar taldi umboðsmaður því ekki rétt að fjalla frekar um málið að sinni. Hann tók þó fram að þær gætu síðar leitað til sín með sérstaka kvörtun vegna ráðningarinnar en slík kvörtun þyrfti þó að berast innan árs frá því að ákvörðun um hana var tekin.