Svör við erindum.

(Mál nr. 6992/2012)

Hinn 18. apríl 2012 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að hafa ekki fengið niðurfellingu á húsnæðislánum sínum. A hafði ritaði forsætisráðuneytinu bréf þess efnis en ekki fengið svar. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 7. júní 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í skýringum forsætisráðuneytisins til umboðsmanns í tilefni af fyrirspurn hans um málið kom fram að erindi A hefði nú verið svarað með tölvubréfi, dags. 22. maí 2012. Þar sem forsætisráðuneytið hafði tekið afstöðu til erindisins og tilkynnt A um hana taldi umboðsmaður rétt að ljúka athugun sinni á málinu. Umboðsmaður tók þó fram að ef A væri ósáttur afgreiðsluna væri honum velkomið að leita til sín að nýju með sérstaka kvörtun þar að lútandi en að í kvörtuninni yrði þá að gera grein fyrir því hvernig A teldi hlutaðeigandi stjórnvöld ekki hafa sinnt lagaskyldum sem á þeim hvíldu.