Atvinnuréttindi. Afturköllun löggildingar vigtarmanns. Lagaheimild reglugerðar.

(Mál nr. 384/1991)

Máli lokið með áliti, dags. 25. nóvember 1991.

A kvartaði yfir því að færi hann ekki á námskeið fyrir löggilta vigtarmenn skv. reglugerð nr. 162/1990, myndi hann glata löggildingu sinni skv. ákvæði til bráðabirgða í reglugerðinni. Umboðsmaður taldi með hliðsjón af fyrirvara þeim, sem fram kæmi í 3. mgr. 8. gr. erindisbréfs um vigtarmenn nr. 93/1916, og af 1. gr. laga nr. 60/1915 um vigtarmenn, að ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 162/1990 hefði næga lagastoð. Væri ákvæðið reist á þeim sjónarmiðum, að nauðsyn væri á að endurmennta löggilta vigtarmenn, þar sem ný lög og reglugerðir hefðu tekið gildi, sem hefðu í för með sér nýjar vinnuaðferðir. Yrði ekki séð, að með reglugerðinni hefði viðskiptaráðuneytið farið strangar í sakirnar en nauðsynlegt væri til að ná því markmiði, sem að væri stefnt. Taldi umboðsmaður umrætt ákvæði því byggt á lögmætum sjónarmiðum. Umboðsmaður tók fram, að á því virtist byggt, að löggiltir vigtarmenn skyldu sviptir löggildingu eftir tiltekinn tíma sæktu þeir ekki umrædd námskeið, þótt reglugerðin hefði ekki að geyma skýrt ákvæði um slíka sviptingu. Taldi hann, að bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 162/1990 yrði ekki skýrt svo rúmt, að allir vigtarmenn sem ekki færu á námskeið, hefðu þar með glatað löggildingarréttindum sínum, enda fæli svipting réttinda í sér undantekningu frá þeirri meginreglu, að nýjar reglur haggi ekki við starfsréttindum þeirra manna, sem aflað hafa sér þeirra fyrir gildistöku reglnanna. Það var því skoðun umboðsmanns, að vigtarmaður, sem fengið hefði löggildingu, héldi henni þar til rökstudd ákvörðun stjórnvalds um afturköllun löggildingarinnar, hefði verið birt honum. Umboðsmaður benti á, að lög nr. 60/1915 um löggilta vigtarmenn væru afar ófullkomin og þyrftu endurskoðunar við og vakti athygli Alþingis og viðskiptaráðherra á því sem "meinbugum" á lögum, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

I. Kvörtun.

Hinn 11. janúar 1991 bar A fram kvörtun út af því, að verið væri að fella niður löggildingu hans sem vigtarmanns með reglugerð nr. 162/1990 um námskeið fyrir löggilta vigtarmenn, sbr. reglugerð nr. 337/1990. Með bréfi sýslumannsins í X-sýslu frá 23. ágúst 1979 hafði A verið veitt löggilding "til þess að vera vigtarmaður á hverskyns sjávarafla, sem á land berst í [Y-kauptúni]".

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 25. febrúar 1991 ritaði ég viðskiptaráðherra bréf og óskaði eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, að viðskiptaráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A. Ég óskaði sérstaklega eftir því að fram kæmi, á hvaða lagagrundvelli framangreint ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 162/1990 væri reist og hvort sá skilningur væri réttur, að löggilding vigtarmanns félli niður, hefði hann ekki sótt námskeið, sem gefinn væri kostur á, fyrir nefnt tímamark. Þá óskaði ég upplýsinga um, hvort og þá með hvaða hætti A og þeim, sem líkt væri ástatt um, hefði verið gefinn kostur á að sækja nefnd námskeið.

Svar viðskiptaráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 22. mars 1991, og sagði þar m.a. svo:

"Spurt er í bréfi yðar um það á hvaða lagagrundvelli ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 162/1990 er reist. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið, sem reglugerðina setti vísar til þess að í niðurlagsákvæði erindisbréfs nr. 93/1916 hafi vigtarmönnum verið gert að sætta sig við breytingar þær, sem gerðar séu á erindisbréfinu.

Til nánari skýringar skal þess getið að fram á s.l. ár löggiltu lögreglustjórar vigtarmenn án samráðs eða samvinnu við Löggildingarstofuna. Við breyttar aðstæður taldi ráðuneytið að gera yrði nýjar og auknar kröfur til þekkingar og hæfni vigtarmanna og var því framangreind reglugerð sett.

Hinar breyttu aðstæður eru fólgnar í því að nýjar reglur hafa verið settar um vigtun sjávarafla, sem fela í sér verulega breytingu á framkvæmd starfa vigtarmanna. Á grundvelli laganna um stjórn fiskveiða nr. 3/1988 var sett reglugerð um vigtun sjávarafla nr. 567/1989 og síðan leysti reglugerð nr. 489/1990 hana af hólmi, en þar eru gerðar nýjar reglur um verklag við vigtun sjávarafla. Þá hefur tækniþróun síðustu áratuga skapað nýjar aðstæður og gert nauðsynlegt, að löggiltir vigtarmenn kunni skil á nýrri tækni svo sem tölvustýringu voga, uppbyggingu þeirra, stillingu og löggildingu. Jafnframt er nauðsynlegt að tryggja að þeir hafi kunnáttu til að fjalla um tölur og talnameðferð.

Af framangreindum ástæðum var ákveðið að efna til námskeiða fyrir vigtarmenn og um þau sett sérstök reglugerð. Byggðist reglugerðin á ákvæðum laga nr. 60, frá 3. nóvember 1915, en tilvitnað bráðabirgðaákvæði er samið með hliðsjón af niðurlagi erindisbréfsins frá 1916 eins og að framan greinir.

Ráðuneytið lítur svo á, að eldri löggildingar falli úr gildi, ef vigtarmenn sækja ekki námskeiðin innan tilskilins frests.

Námskeiðin hafa verið auglýst í dagblöðum og tilkynningar um þau hafa verið sendar öllum lögreglustjóraembættum. Alls hafa 18 námskeið verið haldin og hefur námskeiðshaldið dreifst á alla landshluta. Á næstu dögum verða haldin 2 námskeið í viðbót, annað á Norðfirði en hitt í Reykjavík.

Hins vegar hefur hverjum löggiltum vigtarmanni ekki verið skrifað um málið þar eð heildarskrá um þá skortir, en því treyst að viðkomandi lögreglustjóri hafi kynnt þeim málið. Virðist ráðuneytinu reyndar af þeim fjölda fyrirspurna, sem því hafa borist símleiðis frá starfandi vigtarmönnum að efni reglugerðarinnar sé þeim vel kunnugt.

Vegna nokkurra beiðna þar að lútandi, hefur nú verið ákveðið að framlengja frest þann, sem gefinn var með reglugerð nr. 337/1990 til 1. október n.k."

Með bréfi, dags. 3. apríl 1991, gaf ég A kost á að gera athugasemdir við bréf viðskiptaráðuneytisins. Athugasemdir hans bárust mér 24. september 1991.

III. Álit umboðsmanns Alþingis.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 25. nóvember 1991, sagði svo:

"1. Lagaheimild

Reglugerð nr. 162/1990 um námskeið fyrir löggilta vigtarmenn, sbr. reglugerðir nr. 337/1990 og 137/1991, er sett með stoð í lögum nr. 60/1915 um löggilta vigtarmenn. Ákvæði til bráðabirgða í reglugerðinni hljóðar nú svo:

"Fram til 1. október 1991 er Löggildingarstofunni heimilt að veita starfandi löggiltum vigtarmönnum undanþágu til þess að starfa sem slíkir hafi þeir eigi átt þess kost að komast á námskeið í samræmi við framangreind ákvæði."

Varðandi heimild viðskiptaráðuneytisins til þess að skylda löggilta vigtarmenn til þess að fara á námskeið til endurmenntunar, vísar ráðuneytið til erindisbréfs nr. 93/1916 fyrir vigtarmenn, en í 3. mgr. 8. gr. þess segir, að vigtarmaður sé "skyldur til að sætta sig við breytingar þær, er kunna að verða gerðar á erindisbrjefi þessu." Umrætt erindisbréf er sett með stoð í 1. gr. laga nr. 60/1915 um vigtarmenn, en þar er viðkomandi ráðuneyti heimilað að gefa út slík erindisbréf.

Með hliðsjón af fyrirvara þeim, er fram kemur í 3. mgr. 8. gr. erindisbréfs um vigtarmenn nr. 93/1916, og af 1. gr. laga nr. 60/1915 um vigtarmenn verður að telja, að ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 162/1990, um námskeið fyrir löggilta vigtarmenn, sbr. reglugerðir nr. 337/1990 og 137/1991, hafi næga lagastoð.

Ákvæði til bráðabirgða er reist á þeim sjónarmiðum, að nauðsyn sé á að endurmennta löggilta vigtarmenn, þar sem ný lög og reglugerðir hafi tekið gildi, sem hafi í för með sér nýjar vinnuaðferðir, er byggi m.a. á nýrri tækni. Verður ekki séð, að með reglugerðinni hafi viðskiptaráðuneytið farið strangar í sakirnar en nauðsynlegt var til að ná því markmiði, sem að var stefnt. Verður umrætt ákvæði því að teljast byggt á lögmætum sjónarmiðum.

Að framansögðu athuguðu er það niðurstaða mín, að A verði að sæta því að fara á námskeið, sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 162/1990, til þess að eiga rétt á því að halda löggildingu sinni sem vigtarmaður.

2. Afturköllun löggildingar

Varðandi gildi löggildingar þeirra vigtarmanna, sem ekki hafa sótt námskeið fyrir 1. apríl 1991, segir svo í bréfi viðskiptaráðuneytisins, dags. 22. mars 1991:

"Ráðuneytið lítur svo á, að eldri löggildingar falli úr gildi, ef vigtarmenn sækja ekki námskeiðin innan tilskilins frests."

Í ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 162/1990, sbr. reglugerðir nr. 337/1990 og 137/1991, er aðeins kveðið á um undanþágu fyrir starfandi löggilta vigtarmenn til þess að starfa sem slíkir fram til 1. október 1991, hafi þeir ekki átt þess kost á að komast á námskeið þau, sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 162/1990. Þrátt fyrir að framangreint ákvæði virðist byggt á þeirri forsendu, að löggiltir vigtarmenn skuli sviptir löggildingu eftir 1. október 1991, hafi þeir ekki sótt umrædd námskeið, er ekki að finna í reglugerðinni skýrt ákvæði um slíka sviptingu. Svipting löggildingar getur skipt miklu máli fyrir þá, sem hún bitnar á, og hún felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu, að nýjar reglur haggi ekki við starfsréttindum þeirra manna, sem aflað hafa sér þeirra fyrir gildistöku reglnanna. Með hliðsjón af því verður bráðabirgðaákvæði reglugerðar nr. 162/1990, sbr. reglugerðir nr. 337/1990 og nr. 137/1991, ekki skýrt svo rúmt að allir vigtarmenn, sem ekki hafa farið á námskeið fyrir 1. október 1991, hafi þar með glatað þeim réttindum, sem löggildingin veitti þeim.

Verður að telja, að vigtarmaður, sem fengið hefur löggildingu, haldi henni, þar til rökstudd ákvörðun stjórnvalds, sem til þess er bært, um afturköllun löggildingarinnar hefur verið birt honum.

Niðurstaða mín er því sú, að A haldi löggildingu sinni sem vigtarmaður, þar til sérstök ákvörðun um afturköllun hennar hefur verið birt honum.

3. Niðurstaða

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða mín, að ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 162/1990, sbr. reglugerðir nr. 337/1990 og 137/1991, hafi næga lagastoð og þurfi A því að fara á námskeið, sem mælt er fyrir um í reglugerð nr. 162/1990, til þess að eiga rétt á því að halda löggildingu sinni sem vigtarmaður. Ég tel hins vegar, að A haldi löggildingu sinni sem vigtarmaður, þar til sérstök ákvörðun um afturköllun löggildingarinnar hefur verið birt honum.

Lög nr. 60/1915 um löggilta vigtarmenn eru afar ófullkomin. Þar er til dæmis ekki fjallað um þau hæfisskilyrði, sem maður verður að uppfylla til þess að geta fengið og haldið löggildingu sem vigtarmaður, og ekki er þar heldur að finna neinar reglur um réttindi og skyldur vigtarmanna. Slík atriði er mun eðlilegra að hafa í lögum en í stjórnsýslufyrirmælum. Ég tel því, að endurskoða beri lög nr. 60/1915 um löggilta vigtarmenn. Tel ég ástæðu til að vekja athygli Alþingis og viðskiptaráðherra á því máli, sbr. 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis."

IV. Viðbrögð stjórnvalda.

Með bréfi til viðskiptaráðherra, dags. 1. október 1992, spurðist ég fyrir um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af áliti mínu í ofangreindu máli. Í bréfi viðskiptaráðuneytisins frá 5. október 1992 kom fram, að á 115. löggjafarþingi hefði verið lagt fram frumvarp um vog, mál og faggildingu og hefði það verið flutt á nýjan leik á 116. löggjafarþingi í nokkuð breyttri mynd. Fylgdi frumvarpið bréfi ráðuneytisins, en í VI. kafla þess er fjallað um löggilta vigtarmenn og hljóðar hann svo:

„Vigtarmenn skulu hafa löggildingu Löggildingarstofunnar sem gefur út skírteini þeim til handa. Ráðherra setur þeim erindisbréf.

Löggiltir vigtarmenn geta menn orðið uppfylli þeir eftirtalin skilyrði:

1.Eru búsettir hér á landi.

2.Eru fullra tuttugu ára.

3.Eru sjálfráða og fjárráða.

4.Hafa sótt námskeið og staðist prófkröfur í námskeiðslok.

Í reglugerð skal kveðið á um prófkröfur samkvæmt 4. tl. 1. mgr.

Synja má manni um löggildingu ef 68. gr. almennra hegningarlaga á við um hagi hans.

Löggilding vigtarmanns gildir í allt að fimm ár en heimilt er að ákveða styttri gildistíma í einstökum tilfellum samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur.

Heimilt er að binda löggildingu vigtarmanns við tiltekinn eða tiltekna vinnustaði. Ennfremur má undanþiggja ákveðna vinnustaði. Löggildingarstofan getur kveðið á um að störf hjá tilteknum vinnuveitendum séu ósamrýmanleg störfum löggiltra vigtarmanna.

20. gr.

Vottorð löggilts vigtarmanns er full sönnun þess sem vegið var og hvað var vegið. Ráðherra getur í reglugerð tilgreint að ákveðin störf skuli unnin af löggiltum vigtarmönnum.“

Framangreint frumvarp var samþykkt sem lög nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu, og var framanritaður VI. kafli þess samþykktur óbreyttur.