Ábúðarlög. Eigendaskráning á endurræktun. Fasteignaskrá. Andmælaréttur.

(Mál nr. 823/1993)

A kvartaði yfir því, að Fasteignamat ríkisins hefði breytt eigendaskráningu jarðarinnar X í fasteignaskrá, þannig að leiguliðar jarðarinnar hefðu verið skráðir eigendur að 19,1 ha ræktaðs lands, en eigendur jarðarinnar skráðir sem eigendur 49,2 ha í stað 68,3 ha áður. Var breytingin gerð að beiðni leigutaka, en A hélt því fram, að eingöngu hefði verið um viðhald á ræktuðu landi að ræða, en ekki nýrækt eða endurræktun umfram lögbundið viðhald. Þá laut kvörtun A að því, að andmælaréttar hefði ekki verið gætt. Af gögnum málsins var ljóst, að heildarræktun á jörðinni X hafði ekki aukist á ábúðartíma leiguliða og að sú 19,1 ha ræktun sem skráð var eign leiguliða hefði verið unnin á sama landi og leiguliðar tóku við sem ræktuðu landi. Fjallaði umboðsmaður aðeins um eigendaskráningu á slíkri endurræktun. Féllst umboðsmaður á, að leiguliði á bújörð gæti átt hagsmuni af því að upplýsingar í fasteignaskrá væru endurskoðaðar. Rakti umboðsmaður ákvæði laga um skráningu og mat fasteigna og tók fram, að Fasteignamati ríkisins bæri að skrá nýjustu upplýsingar um fasteignir hverju sinni, þ. á m. um eignarhald. Á hinn bóginn yrði að krefjast þess að gögn til stuðnings breytingu á skráningu væru fullnægjandi og að réttum málsmeðferðarreglum væri fylgt við slíka ákvörðun. Því yrði leiguliði að sýna fram á eignarhald sitt á ræktun. Taldi umboðsmaður eðlilegt í því sambandi að krefjast skriflegrar staðfestingar jarðareiganda eða mats úttektarmanna samkvæmt 17. og 18. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976. Væri þessu ekki fyrir að fara, bæri Fasteignamati ríkisins að gefa jarðareiganda kost á að tjá sig um beiðni leiguliða, áður en máli væri ráðið til lykta, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá bæri að tilkynna um breytingu á fasteignaskrá og gæta að öðru leyti ákvæða 20. gr. stjórnsýslulaga um birtingu ákvörðunar og leiðbeiningar um kæruheimildir. Umboðsmaður taldi samkvæmt þessu, að ekki hefðu legið fyrir fullnægjandi gögn eða afstaða jarðareiganda er skráningu á eignarhaldi á jörðinni X var breytt og beindi þeim tilmælum til Fasteignamats ríkisins, að málið yrði tekið til afgreiðslu að nýju, ef A óskaði þess, og afgreiðslu þess hagað í samræmi við framangreind sjónarmið.

I. Hinn 19. maí 1993 bar A, fram kvörtun yfir því, að eigendaskráningu jarðarinnar X, í fasteignaskrá skv. lögum nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, hefði verið breytt með þeim hætti af hálfu Fasteignamats ríkisins, að leiguliðar jarðarinnar hefðu verið skráðir eigendur tiltekinnar ræktunar. Jafnframt kvartaði hún yfir því, að fjármálaráðuneytið hefði með bréfi frá 7. janúar 1993 synjað henni um leiðréttingu á framangreindri breytingu. II. Málavextir voru þeir, að A var eigandi að 1/8 hluta jarðarinnar X. Jörðin var í leiguábúð samkvæmt byggingarbréfi frá 1. júní 1986. Ræktað land jarðarinnar var 68,3 ha og samkvæmt frásögn A hafði ekkert nýtt land verið brotið til ræktunar frá því að ábúð núverandi leigutaka hófst árið 1986. Samkvæmt ákvæðum byggingarbréfsins bar leigutökum að halda við ræktun á jörðinni. Haustið 1989 gerði Fasteignamat ríkisins þá breytingu á skráningu eigenda ræktunar á jörðinni X, að leigutakar voru skráðir eigendur að 19,1 ha ræktaðs lands, en eigendur jarðarinnar voru áfram skráðir eigendur að 49,2 ha. Af hálfu Fasteignamats ríkisins kom fram sú skýring, að þessi breyting hefði verið gerð samkvæmt beiðni leiguliða jarðarinnar í samræmi við þá framkvæmd Fasteignamats ríkisins að skrá leigutaka bújarða eigendur að þeim húsum og þeirri ræktun, sem þeir kosta sjálfir. Af hálfu Fasteignamats ríkisins var tekið fram, að þetta væri gert með hliðsjón af 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, sem kveður á um úttekt, mat og uppgjör við ábúðarlok. Í kvörtun A sagði, að þeir 19,1 ha, sem Fasteignamatið skráði sem eign leigutaka jarðarinnar, hefðu svarað til þess hluta af alls 68,3 ha ræktun á jörðinni, sem leigutakar hefðu endurræktað á ábúðartíma sínum, ýmist einir eða í félagi við eigendur jarðarinnar. Hinn 12. febrúar 1991 óskaði A eftir skýringum Fasteignamats ríkisins á breytingunni og í bréfi frá umdæmisskrifstofu Fasteignamats ríkisins á Y, dags. 27. maí 1991, var staðfest, að framangreind breyting hefði verið gerð að beiðni leigutaka jarðarinnar og þá hefðu verið sérskráð þau tún, sem þeir hefðu ræktað og endurræktað á jörðinni fram til haustsins 1989. Síðan sagði: "Það sem fyrst og fremst vakir fyrir ábúenda er að nýta sér fyrningar, af eigin ræktun, og tryggja sig, ef breyting yrði á ábúð, samkvæmt 16. gr. ábúendalaga, nr. 64/1976, með seinni tíma breytingum." Með bréfi, dags. 25. júlí 1991, gerði A kröfu um að Fasteignamat ríkisins úrskurðaði um breytta skráningu á ræktuðu landi í X. Þessari kröfu var svarað af hálfu Fasteignamats ríkisins með bréfi forstjóra þess, dags. 13. desember 1991. Þar segir: "Þar sem kæra yðar varðar ekki matsverð eignar, sbr. 21. gr. laga nr. 94/1976, verður ekki felldur úrskurður skv. þeirri grein, en niðurstaða rökstudd. Skv. byggingarbréfi dagsettu 1. júní 1986 er hluti ofangreindrar jarðar leigður þeim [...] til fimm ára frá þeim degi. Fasteignamat ríkisins hefur um langt árabil skráð leigjendur bújarða eigendur að þeim húsum og þeirri ræktun, sem þeir kosta sjálfir. Hefur það verið gert með hliðsjón af 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976, sem kveður á um úttekt, mat og uppgjör við ábúðarlok. Önnur tilhögun á eigendaskráningu í þessum tilvikum er nánast óframkvæmanleg. A.m.k. er óframkvæmanlegt að halda við síbreytilegri eigendaskráningu eins og yrði að gera væri farið að ósk yðar og hliðsjón höfð af byggingarbréfinu og ábúðarlögum hvað snertir rétt leigjanda. Fyrrgreind ræktun kynni þá stundum að vera eign landeiganda og stundum eign leigjanda. Skv. 16. gr. ábúðarlaganna á að fara fram uppgjör milli leigjanda og leigusala þegar ábúð lýkur. Við það uppgjör verður eigandi jarðarinnar eigandi að þeim húsum og umbótum á jörð, sem leigutaki hefur kostað, gegn greiðslu þeirrar matsfjárhæðar, sem úttektarmenn ákveða. Við það mat geta bæði eigandi og leigjandi jarðar komið á framfæri öllum sínum sjónarmiðum varðandi verðmæti þeirra framkvæmda, sem hvor um sig hefur kostað. Í byggingarbréfinu eru engin ákvæði, sem sýna, að ábúð [leiguliða] skuli vera með öðrum hætti en kveðið er á um í ábúðarlögum. Skal í því sambandi bent á 7. og 11. gr. byggingarbréfsins. Niðurstaða Fasteignamats ríkisins er því sú, að [leiguliðar] skuli vera skráður eigandi að þessari 19,1 ha ræktun miðað við 1.12.89 og 1.12.90." A ritaði fjármálaráðuneytinu bréf hinn 9. janúar 1992 og sendi ráðuneytinu til athugunar mál sitt og lauk bréfi sínu með því að óska eftir liðsinni ráðuneytisins við að leysa málið. Hún benti jafnframt á að eigi væri unnt að skjóta málinu til yfirfasteignamatsnefndar þar sem ekki væri deilt um matsverð eignar. Fjármálaráðuneytið svaraði erindi A með svohljóðandi bréfi, dags. 7. janúar 1993: "Með bréfi yðar, dags. 9. janúar 1992, óskuðuð þér eftir því að ráðuneytið veitti yður liðsinni í deilu sem þér hafið átt við Fasteignamat ríkisins varðandi þá háttu sem Fasteignamat ríkisins hefur haft á skráningu eigenda að ræktuðu landi jarðarinnar [X]. Í bréfi yðar kemur fram að ræktað land jarðarinnar [X] sé 68,3 ha. Jörð þessi hafi verið í leiguábúð frá 1986 og muni ábúendur á leigutímanum hafa haldið við ræktuðu landi jarðarinnar, m.a. með endurræktun túna í samræmi við 4. gr. byggingarbréfs, sem fylgdi bréfi yðar í ljósriti. En það ákvæði er svohljóðandi: Leigutökum er skylt að halda við húsum, ræktun og girðingum og öðrum mannvirkjum, þannig að ekki rýrni umfram eðlilega fyrningu. Í bréfi yðar kemur fram, að án samráðs við yður, sem eiganda jarðarinnar, hafi að beiðni ábúenda, þeir verið frá 1. desember 1989 verið í fasteignaskrá sem skráðir eigendur að öllu ræktuðu landi sem þeir höfðu "hróflað við með endurræktun sem er 19,1 ha." Ræktað land eigenda jarðarinnar hafi skroppið saman sem því hafi numið. Fram kemur að þér hafið leitað eftir skýringum og leiðréttingum frá Fasteignamati ríkisins. Í svari Fasteignamats ríkisins hafi leiðréttingu verið hafnað og vísað til skráningarvenju, er byggði á 16. gr. ábúðarlaga. Í bréfi yðar er bent á að þér séuð eigandi að 1/8 hluta jarðarinnar og að eignarheimild yðar sé óumdeild og þinglýst. Til þess að réttlætanlegt sé að skrá annan aðila eiganda að hluta fasteignarinnar hljóti að þurfa gild rök, en slíku sé ekki fyrir að fara í málinu. Því sé ósvarað með hvaða rétti Fasteignamat ríkisins skerði í skráningu sinni rétt þinglýstra eigenda. Í bréfi yðar er að lokum bent á að mál þetta sé fyrst og fremst réttlætismál, sem snúist m.a. um fjárhagslega hagsmuni, þar sem samkvæmt byggingarbréfi um jörðina, sé leiga hlutfall af fasteignamati. Reglur Fasteignamats ríkisins skerði þannig leigutekjur þær sem leigusalar eigi heimtingu á. Ráðuneytið sendi erindi yðar ásamt þeim gögnum er því fylgdu til umsagnar til Fasteignamats ríkisins. Hefur yður áður verið sent afrit af þeirri umsögn. Ráðuneytið lítur svo á, að matsreglur Fasteignamats ríkisins geti aldrei breytt eignarrétti að fasteignum hvorki efnislegum eða formlegum eignarrétti. Þannig hafi eignarhlutdeild [yðar] ekki minnkað í viðkomandi jörð vegna einhverra ráðstafana af hálfu Fasteignamats ríkisins. Skráning í fasteignaskrá getur aldrei verið viðhlítandi eignarheimild í skilningi eignarréttar. Sú ráðstöfun að skrá leiguliða sem eiganda að ræktun byggir á skattareglum annars vegar og reglum ábúðarlaga, sbr. 1. mgr. 16. gr., þar sem gert er ráð fyrir að leiguliði geti átt umbætur á jörð. Þannig er litið á ræktun lands sem eign af sambærilegum toga og mannvirki sem byggt sé á ábúðartíma, jafnvel þótt um endurræktun á áður ræktuðu landi sé að ræða. Í ljósi þessa telur ráðuneytið að sú ráðstöfun að telja leiguliða eiganda að ræktun byggða á eðlilegum forsendum. Ráðuneytið vill þó taka fram að eðlilegt hafi verið af Fasteignamati ríkisins að tilkynna yður um það er umrædd skráning var framkvæmd á fasteignaskrá. Ráðuneytið vill að lokum biðjast velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á afgreiðslu máls þessa." III. Með bréfi, dags. 19. ágúst 1993, óskaði ég eftir því að fjármálaráðuneytið skýrði afstöðu sína til kvörtunar A, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og léti mér í té gögn um málið. Svar ráðuneytisins barst mér í bréfi þess, dags. 24. febrúar 1994. Þar segir meðal annars: "... Í rökstuðningi sínum virðist kvartandi telja að með þeirri ráðstöfun Fasteignamats ríkisins að skrá ábúendur sem eigendur hluta landsins hafi hún verið svipt eignarrétti sínum fyrir landarskika þeim sem um ræðir í máli þessu. Eins og fram kemur í kvörtun [A] ritaði hún ráðuneytinu bréf og var því svarað með bréfi 7. janúar 1993. Var í því bréfi vísað til þess að sú ráðstöfun að skrá leiguliða sem eiganda að ræktun byggði á skattareglum annars vegar og reglum ábúðarlaga, sbr. 1. mgr. 16. gr., þar sem gert er ráð fyrir að leiguliði geti átt umbætur á jörð. Þegar vísað var til skattareglna var verið að vísa til þeirra skattareglna sem gilda um mat á eignarréttindum. Þær reglur er að finna í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt og í reglugerð nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Í þeirri reglugerð er svohljóðandi ákvæði í A-lið 57. gr.: Virðing á fasteign skal fara eftir gildandi fasteignamati, sbr. lög nr. 28/1963, um fasteignamat og fasteignaskráningu. Sé ræktun og mannvirki á leigulóð, leigulandi eða erfðafestulandi metin í einu lagi með lóðinni eða landinu, þá skal eigandi telja sér lóðina eða landið til eignar á verði, sem svarar til fimmtánfaldrar leigunnar á skattárinu, þó aldrei hærra en fasteignamatinu nemur. Sé fasteignamatið hærra en ársleigan fimmtánföld, telst það, sem umfram er, eign leigjanda. Þessi regla breytir í engu eignarrétti sem slíkum að eigninni, heldur segir eingöngu til um hvernig eigi að meta eignina til eignarskatts. Beinlínis er gert ráð fyrir að hluti eignar geti verið metinn skattalega leigjanda til eignar, en í því verður ekki talist felast það, að formlegur eigandi samkvæmt viðurkenndum eignarheimildum sé eigi lengur eigandi eignarinnar. Það má í skattaframkvæmd finna önnur dæmi um það að ekki sé nein samsvörun milli skattalegrar eignar og eignar samkvæmt eignarrétti. Sem dæmi um slíkt má t.d. nefna hina skattalegu eignfærslu aflaheimilda í sjávarútvegi, sbr. nýlegan dóm Hæstaréttar í málinu nr. 291/1993: Hrönn h.f. gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og gagnsök. Í annan stað gerir [A] athugasemdir við tilvísun Fasteignamats ríkisins í 1. mgr. 16. gr. ábúðarlaga. Af því tilefni vill ráðuneytið taka fram að gert er ráð fyrir að í tilvitnaðri grein að leiguliði geti átt umbætur á jörð. Ef ræktuðu landi er ekki haldið við er ekki lengur hægt að tala um ræktað land. Sú ráðstöfun að meta landið með þessum hætti til eignar leigjanda breytir að sjálfsögðu ekki samningi leigjanda við landeiganda, né á að hafa áhrif við uppgjör þeirra í lok leigutímans. Hafa verður í huga í þessu sambandi að Fasteignamat ríkisins er fyrst og fremst opinber matsaðili sem framkvæmir eignamat til ákvörðunar skattstofna samkvæmt gildandi skattalögum á hverjum tíma. Ráðuneytið getur tekið undir það með [A] að mál hennar hefur tekið óeðlilega langan tíma í meðförum stjórnvalda og er það miður. Ráðuneytið ítrekar það sem kom fram í bréfi þess þann 7. janúar 1993, að eðlilegt sé að eigendum landsins sé tilkynnt um breytingar sem framkvæmdar eru á fasteignamatinu, og þeim gefinn kostur á að tjá sig um þær samkvæmt almennum reglum. Þessari skoðun ráðuneytisins hefur verið komið á framfæri við Fasteignamat ríkisins. Að öðru leyti vísar ráðuneytið til tilvitnaðs bréfs ráðuneytisins frá 7. janúar 1993 og til bréfa Fasteignamats ríkisins." A gerði síðan bréflegar athugasemdir við bréf fjármálaráðuneytisins. IV. Í áliti mínu, dags. 13. mars 1995, rakti ég lagareglur um skráningu og mat fasteigna, sem á reyndi við úrlausn á kvörtun A: "Samkvæmt 1. gr. laga nr. 94/1976, um skráningu og mat fasteigna, skal Fasteignamat ríkisins halda skrá um allar fasteignir í landinu og skulu þar meðal annars koma fram upplýsingar um "rétt til þeirra". Í 2. gr. laganna segir, að fasteign samkvæmt lögunum teljist vera annað tveggja: "1. Land, þ.e. hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja getur talist sjálfstæð eind. 2. Mannvirki, þ.e. hvert það mannvirki sem gert hefur verið í landi eða á eða verið við það tengt, með hliðsjón af þeim rétti til lands sem mannvirkinu fylgir. Ef um er að ræða sérgreindan eignarrétt eða sérstaka notkun einstakra hluta mannvirkja, sem eðlilegt er að skoða sem sjálfstæðar eindir, skal samkvæmt lögum þessum farið með slíka eignarhluta sem fasteignir, enda liggi skipting og eignarhlutföll fyrir í þinglýstum heimildum." Í 3. gr. laga nr. 94/1976 segir, að skráningin skuli fela í sér nýjustu upplýsingar, sem á hverjum tíma eru tiltækar og fasteignina varða. Samkvæmt 4. gr. laganna skulu upplýsingar skráðar og skráningu þeirra breytt, þegar landstærðir breytast, notkun lands breytist, svo sem við gerð lóðarsamnings eða úthlutun lóðar, en ella á byggingartíma mannvirkis, þegar mannvirki er tekið í notkun og loks þegar mannvirki er breytt eða eytt. Þá segir, að upplýsingar skuli einnig skráðar við eignaskipti eða breytingu á notkun eignar svo og á umráðum eignar. Tekið er fram, að setja skuli í reglugerð ákvæði m.a. um hve oft fasteignir skuli skoðaðar af Fasteignamati ríkisins. Nánari fyrirmæli um fasteignaskráningu eru í reglugerð nr. 406/1978, um fasteignaskráningu og fasteignamat. Í 1. gr. reglugerðarinnar segir, að skráning á fasteign skuli fela í sér nýjustu upplýsingar, sem tiltækar eru um þau atriði, sem tilgreind eru í reglugerðarákvæðinu og fasteign varða. Í 3. og 4. tl. ákvæðisins segir: "3. Upplýsingar um eigendur og/eða umráðamenn, sem skráðar skulu um land og mannvirki eða skráningarhluta mannvirkis, eftir því sem við á. Nafn eiganda og... ... Nafn ábúanda og... Nöfn eigenda annarra réttinda yfir hinni skráðu eign ásamt... Þar sem um er að ræða leigjendur skal skráning takmörkuð við leigjendur að heilum skráningarhlutum. 4. Sérgreindar upplýsingar um bújarðir. Nafngreina skal eiganda jarðar og ábúanda. Einnig skal tilgreina nöfn eigenda annarra réttinda yfir hinni skráðu eign ásamt..." Í 2. gr. reglugerðarinnar segir, að í lok hvers árs skuli Fasteignamat ríkisins gefa út fasteignaskrá til nota fyrir opinbera aðila, og skal hún geyma nýjustu upplýsingar um skráningu og mat fasteigna. Í 2. tl. ákvæðisins segir: "Fasteignaskrá skal greina: 2.1. Heiti eignar og greinitölu. Ennfremur skal lýsa því hvernig eignar- og afnotarétti sé háttað, án þess þó, að rétthafar séu þar nafngreindir, svo sem hvort land er einstaklingseign eða í eigu bæjar- eða sveitarfélaga og hvort land er leigt eða í afnotum eigenda sjálfra. Þá skal og tilgreina sér, eftir því sem heimildir leyfa: 2.1.1. Í sveitum: Stærð og matsverð túna og annarrar ræktunar. Matsverð á öðru landbúnaðarlandi, hlunnindum, íbúðarhúsum og loks öllum útihúsum sem ætluð eru til búskapar. ... 2.3. Loks skal, eftir því sem við verður komið, birta nöfn og nafnnúmer þinglýstra eigenda viðkomandi fasteignar samkvæmt upplýsingum viðkomandi sveitarstjórnar, sbr. 9. gr. laga nr. 94/1976." Í 4. tl. 7. gr. reglugerðar nr. 406/1978 segir, að tún og önnur ræktun landbúnaðarlands skuli metin á grundvelli endurræktunarkostnaðar. Í 11. gr. laga nr. 94/1976 er fjallað um endurskoðun upplýsinga, sem fyrir liggja hjá Fasteignamati ríkisins, og í 3. og 4. mgr. greinarinnar segir: "Eigandi fasteignar eða annar aðili, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta í lýsingu fasteignar eða mati, getur krafist endurskoðunar skv. 1. mgr. Séu þessir hagsmunir að mati stofnunarinnar svo miklir að réttlæti endurskoðun skal sú endurskoðun fara fram svo fljótt sem við verður komið. Breyting á fasteignaskrá, hvernig sem til hennar er stofnað, skal tilkynnt skráðum eiganda fasteignar bréflega strax og slík breyting hefur verið gerð."" V. Í úrlausn um þau atriði, sem A kvartaði yfir, segir: "Af hálfu A er á því byggt að þeir 19,1 ha, sem Fasteignamat ríkisins breytti skráningu á, hafi eingöngu verið viðhald á ræktuðu landi jarðarinnar af hálfu leiguliða, en ekkert óræktað land brotið. Í samræmi við ákvæði ábúðarlaga nr. 64/1976 fór fram úttekt 14. júlí 1986, þegar leiguliðar tóku við. Þar er heildarstærð þeirrar túnræktar, sem leigutakar taka við, sögð vera 69,8 ha. Eftir þá breytingu á skráningu, sem kvartað er yfir, var ræktun á jörðinni X tilgreind í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins í tvennu lagi, 49,2 ha voru skráðir eign jarðareigenda og 19,1 ha eign leigutaka jarðarinnar, en samtals er þá ræktun á jörðinni skráð 68,3 ha. Fram kemur í gögnum frá Fasteignamati ríkisins, að sú tala er miðuð við framlögð túnakort. Af þessum tölum verður ráðið, að heildarræktun á jörðinni X hafi ekki aukist á ábúðartíma leiguliðanna frá úttektinni 1986 og ekki liggur annað fyrir en að sú 19,1 ha ræktun, er skráð var sem eign leiguliða jarðarinnar í fasteignaskrá, hafi verið unnin á því sama landi og leiguliðarnir tóku við sem ræktuðu landi árið 1986. Í þessu áliti verður eingöngu fjallað um eigendaskráningu á slíkri endurræktun. Samkvæmt 27. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 er leiguliða skylt að halda við ræktun og ber honum að annast viðhald hennar á sinn kostnað, þannig að hún gangi ekki úr sér umfram eðlilega fyrningu. Þessi skylda er ítrekuð í byggingarbréfi leiguliða jarðarinnar X. Samkvæmt 16. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 er jarðareiganda skylt að kaupa af leiguliða við ábúðarlok hans ræktun fráfarandi leiguliða. Kaupskylda þessi tekur þó eingöngu til þeirrar ræktunar, sem leiguliðinn hefur unnið á jörðinni sem nýrækt eða endurræktun umfram lögbundið viðhald þeirrar ræktunar, sem hann tók við. Sá hluti endurræktunar, sem unninn er til að fullnægja lagaskyldu um viðhald, þannig að ræktun gangi ekki úr sér umfram eðlilega fyrningu, verður ekki eign leiguliða, heldur telst viðhald á eign jarðareiganda. Í 18. gr. ábúðarlaga nr. 64/1976 er svo kveðið á, að úttektarmönnum sé meðal annars skylt, ef jarðareigandi eða leiguliði krefst, að skoða ræktun og gefa skýrslu til aðila. Skulu úttektarmenn þá meðal annars athuga sérstaklega viðhald, en samkvæmt 17. gr. laganna skal viðhaldi leiguliða á ræktun hagað þannig, að ekki rýrni umfram eðlilega fyrningu að mati úttektarmanna. Skoðun samkvæmt 18. gr. laganna getur farið fram hvenær sem er á ábúðartíma. Með 18. gr., sbr. 17. gr., ábúðarlaga nr. 64/1976 er leiguliða tryggður réttur til að fá skoðun og mat lögskipaðra úttektarmanna á því, hvort ræktun hans á ábúðarjörð sinni sé umfram viðhaldsskyldu hans. Fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins skal lögum samkvæmt hafa að geyma nýjustu upplýsingar, sem á hverjum tíma eru tiltækar um fasteignina, þ.m.t. um eignarhald. Fallast ber á, að leiguliði á bújörð geti átt hagsmuni af því í merkingu 3. mgr. 11. gr. laga nr. 94/1976 að upplýsingar um fasteign, þ.m.t. um eignarhald, séu endurskoðaðar. Slíkur réttur leiguliða breytir hins vegar engu um það, að af hálfu Fasteignamats ríkisins verður að gera kröfu um að gögn, sem byggja á breyttri skráningu, séu fullnægjandi og fylgja verður réttum reglum um málsmeðferð við afgreiðslu slíkrar beiðni. Óski leiguliði á bújörð eftir því, að eigendaskráningu á ræktun, sem áður hefur alfarið verið skráð eign jarðareiganda, verði breytt í fasteignaskrá og hann verði skráður eigandi að hluta hennar, verður leiguliðinn að sýna fram á, að hann hafi öðlast eignarhald á umræddum hluta ræktunarinnar. Er eðlilegt að gera þar þá kröfu, að leiguliðinn leggi fram skriflega staðfestingu jarðareiganda eða mat úttektarmanna samkvæmt 18. gr., sbr. 17. gr., ábúðarlaga nr. 64/1976, þar sem fram komi, í hvaða mæli leiguliðinn hafi unnið ræktun á jörðinni umfram viðhaldsskyldu sína. Liggi ekki fyrir skrifleg staðfesting jarðareiganda á eignarhaldi leiguliðans á þeirri ræktun, sem óskað er eftir að skráningu verði breytt á, ber Fasteignamati ríkisins að gefa jarðareiganda kost á að tjá sig um framkomna beiðni leiguliða um breytta skráningu, áður en Fasteignamatið tekur afstöðu til beiðninnar, sbr. nú 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Tilkynning eftir að breyting á fasteignaskrá hefur átt sér stað, sbr. 4. mgr. 11. gr. laga nr. 94/1976, er ekki fullnægjandi í þessu efni, en þess þarf að gæta, að slík tilkynning sé send eftir að málið hefur verið afgreitt og til viðbótar ákvæðum nefndrar 4. mgr. 11. gr. laga nr. 94/1976 þarf nú að gæta ákvæða 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt framansögðu verður að telja, að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi gögn um eignarhald leiguliða jarðarinnar X á umræddri ræktun, þegar skráningu á eignarhaldi hennar var breytt í fasteignaskrá Fasteignamats ríkisins. Þá var þess ekki heldur gætt af hálfu Fasteignamats ríkisins að gefa jarðareigendum kost á að tjá sig, áður en framkomin beiðni leiguliða jarðarinnar var tekin til afgreiðslu haustið 1989. Það eru því tilmæli mín til Fasteignamats ríkisins að mál þetta verði tekið til afgreiðslu að nýju, ef beiðni um það kemur fram frá A, og afgreiðslu þess verði hagað í samræmi við þau sjónarmið, sem ég hef gert grein fyrir hér að framan." VI. Með bréfum, dags. 23. febrúar, 2. apríl og 4. júní 1996, óskaði ég eftir því við fjármálaráðherra, að upplýst yrði hvort A hefði leitað til ráðuneytisins á ný, og þá hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af því. Svar fjármálaráðuneytisins hafði ekki borist þegar skýrslan fór til prentunar.