Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að sjúkraskrá.

(Mál nr. 7086/2012)

Hinn 11. júlí 2012 kvartaði A yfir því að landlæknisembættið hefði ekki svarað beiðni hennar um aðgang að sjúkraskrá látins eiginmanns hennar. A óskaði eftir afriti af sjúkraskránni hjá Landspítala með bréfi, dags. 5. mars 2012, og fékk þau svör 14. mars 2012 að erindið hefði verið sent embætti landlæknis til skoðunar og ákvörðunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Erindi A fylgdi afrit af bréfi landlæknis til lögmanns hennar þar sem henni var veittur frestur til 28. júlí 2012 til að rökstyðja beiðni sína um afhendinguna. Lögmaðurinn svaraði bréfinu 6. júlí 2012. Í ljósi þess hversu skammt var liðið frá síðustu samskiptum A við embætti landlæknis þegar hún lagði kvörtun sína fram og einnig í ljósi þess farvegs málið var lagt í hjá landlækni og framvindu þess þar taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að aðhafast í málinu að svo stöddu. Umboðsmaður lauk athugun sinni en tók fram að drægist afgreiðsla málsins hjá landlækni gæti A leitað til sín á nýjan leik. Þá benti umboðsmaður A á að í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár, ætti hún þess kost, að fenginni niðurstöðu landlæknis í málinu, að skjóta ákvörðun embættisins til velferðarráðuneytisins. Teldi hún enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins í málinu ætti hún þess jafnframt kost að leita til sín á nýjan leik.