Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur málsaðila að gögnum.

(Mál nr. 6924/2012)

A kvartaði yfir því að hafa ekki borist svör frá sveitarfélagi við óskum um afhendingu gagna er vörðuðu málefni fósturbarns hennar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012.

Í skýringum sveitarfélagsins kom m.a. fram að A hefði fengið í hendur öll gögn sem sneru að fósturmáli barnsins og voru þar sérstaklega tilgreindar greinargerðir sem höfðu verið lagðar fyrir barnaverndarnefnd til ákvörðunar varðandi fósturráðstöfun barnsins og annað sem sneri að fósturvistun. Af skýringunum var hins vegar ekki ljóst hvort A hefði fengið í hendur öll þau gögn sem hún taldi sig eiga rétt á, s.s. vinnuskjölum eða gögnum sem kynnu að hafa orðið til við meðferð barnaverndarmáls vegna barnsins.

Eins og atvikum var háttað taldi umboðsmaður rétt, ef vilji A stæði enn til að afla umræddra gagna, að hún sendi á ný beiðni þess efnis til sveitarfélagsins og leiðbeindi henni um að synjun á erindinu væri unnt að bera undir kærunefnd barnaverndarmála á grundvelli 45. og 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka málið til frekari athugunar að svo stöddu en tók fram að ef A kysi að leggja málið í þann farveg sem hann lagði til gæti hún leitað til sín á ný ef tafir yrðu á svörum sveitarfélagsins við erindinu. Ef svo færi að hún leitaði til kærunefndar barnaverndarmála og teldi sig enn beitta rangindum að fenginni úrlausn nefndarinnar gæti hún einnig leitað til sín á ný vegna þess.

Að lokum ritaði umboðsmaður sveitarfélaginu bréf og minnti á að réttur aðila máls til aðgangs að gögnum tæki almennt til allra skjala og gagna er mál vörðuðu og að um aðgang að þeim færi eftir 15.-17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og viðeigandi sérlögum hverju sinni, hér barnaverndarlögum nr. 80/2002. Réttur til aðgangs að gögnum kynni því t.a.m. að ná til vinnuskjals sem stjórnvald hefði ritað til eigin nota ef það hefði að geyma upplýsingar sem ekki yrði aflað annars staðar frá, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga. Ef slík frekari gögn lægju á annað borð fyrir hjá sveitarfélaginu og A kysi að leggja fram nýja beiðni um aðgang að gögnum taldi umboðsmaður rétt að það yrði haft í huga við afgreiðslu á beiðni hennar.