Áfengismál.

(Mál nr. 7083/2012)

A ehf. leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun yfir ýmsum atriðum er vörðuðu Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR). Í kvörtuninni kom m.a. fram að A ehf. teldi ákvæði reglugerðar nr. 755/2011, um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja, fela í sér óheimilt framsal valds frá fjármálaráðherra til ÁTVR. Félagið taldi einnig að ÁTVR hefði borið að birta í Stjórnartíðindum framlegðar- og vörudeildartöflu stofnunarinnar, breytingar á vöruvali verslana og auglýsingu um gjaldtöku af birgjum vegna kostnaðar sem leiðir af töku nýrrar vöru í sölu samkvæmt 9. gr. laga nr. 86/2011, um verslun með áfengi og tóbak. Félagið gerði enn fremur athugasemdir við svokallaða þemadaga ÁTVR, útgáfu stofnunarinnar á fræðsluefni um áfengi og þjónustu vínráðgjafa í verslunum hennar. Að lokum beindist kvörtunin að tilteknum breytingum á framlegðarkröfum sem leiddu til brottfalls vöru frá A ehf. úr kjarnasölu hjá ÁTVR.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af erindi A ehf. varð ekki ráðið að félagið hefði borið efni kvörtunarinnar undir fjármálaráðherra, hvorki að því er varðaði þann annmarka sem félagið taldi vera á reglugerð nr. 755/2011 né að því er varðaði starfshætti ÁTVR. Með það í huga og í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og sjónarmiða að baki því taldi umboðsmaður rétt að A ehf. freistaði þess að bera erindi sitt undir fjármálaráðuneytið, sbr. 3., 4. og 15. gr. laga nr. 86/2011. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka atriði sem A ehf. tilgreindi í erindi sínu til athugunar að eigin frumkvæði, m.a. vegna þess fjölda mála sem var til meðferðar hjá embættinu, en einnig þar sem A ehf. hefði möguleika á að bera umkvörtunarefni sín undir ráðherra.