Fangelsismál. Fullnustuúrræði.

(Mál nr. 6867/2012)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins um að synja beiðni hans um afplánun fangelsisrefsingar undir rafrænu eftirliti var staðfest.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Úrskurður innanríkisráðuneytisins í málinu var byggður á því að A uppfyllti ekki öll þau skilyrði sem samkvæmt 24. gr. b í lögum nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, verða að vera fyrir hendi svo að afplánun undir rafrænu eftirliti komi til álita. M.a. lá fyrir að A hefði ekki nýtt sér úrræði samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna með fullnægjandi hætti, þ.e. fengið leyfi fangelsismálastofnunar til að afplána hluta refsingar utan fangelsis, stundað nám eða vinnu sem fangelsismálastofnun hefði samþykkt og væri liður í aðlögun hans að samfélaginu á ný og búið á sérstakri stofnun eða heimili sem stofnunin hefði gert samkomulag við og væri þar undir eftirliti. Með vísan til þess að A uppfyllti ekki öll skilyrði 24. gr. b leit umboðsmaður svo á að kvörtunin lyti að því fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að gilda skyldi um afplánun fangelsisrefsingar undir rafrænu eftirliti. Með vísan til a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis, taldi umboðsmaður bresta lagaskilyrði fyrir því að taka kvörtunina til frekari meðferðar og lauk afskiptum sínum af henni. Vegna upplýsinga sem komu fram við athugun málsins tók umboðsmaður þó fram að ef A væri ósáttur við framgang lögreglu við rannsókn máls vegna kæru, sem var til meðferðar á hendur honum, gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.