Fjármála- og tryggingastarfsemi. Tryggingar.

(Mál nr. 7089/2012)

A kvartaði yfir niðurstöðu úrskurðarnefndar í vátryggingamálum í máli sem varðaði ágreining um bótaskyldu vegna afleiðinga læknisaðgerðar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 141. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingasamninga, þar sem m.a. kemur fram að úrskurðum nefndarinnar verði ekki skotið til stjórnvalda, og athugasemda í lögskýringargögnum að baki ákvæðinu þar sem m.a. segir að nefndin sé ekki stjórnsýslunefnd, fari ekki með stjórnsýsluvald, mæli ekki fyrir um réttindi og skyldur þeirra sem fara með mál fyrir nefndina og úrskurðir hennar séu ekki bindandi, taldi umboðsmaður ljóst að löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið þá afstöðu að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum færi ekki með stjórnsýsluvald og tæki ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því að umkvörtunarefni A félli ekki undir starfssvið umboðsmanns. Þar af leiðandi taldi umboðsmaður ekki skilyrði til frekari meðferðar kvörtunarinnar.