Húsnæðismál. Félagslegt húsnæði.

(Mál nr. 7032/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að húsnæði sem hún hafði haft á leigu hjá sveitarfélagi hefði verið selt og sér gert að flytja þaðan út. A sá fram á að verða húsnæðislaus innan fárra daga.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. júlí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum hlutaðeigandi sveitarfélags til umboðsmanns kom fram að fjölskylda A hefði fengið tímabundið úthlutað til leigu íbúðarhúsnæði á vegum sveitarfélagsins til 15. ágúst 2012 og að þeim tíma liðnum yrði fjölskyldan aðstoðuð við að leita lausna eins og unnt væri. Í ljósi þessara upplýsinga og með hliðsjón af 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, benti umboðsmaður A á að ef hún væri ósátt við þessa afgreiðslu málsins gæti hún borið það undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 63. gr. laga nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ef hún teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu nefndarinnar gæti hún leitað til sín á ný.