Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6891/2012)

A og B kvörtuðu yfir úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem staðfest var ákvörðun Íbúðalánasjóðs um útreikning á fjárhæð sem kom til niðurfærslu veðskuldar þeirra hjá sjóðnum. Í kvörtuninni kom fram að þau teldu verðmat löggilts fasteignasala, sem Íbúðalánasjóður hafði aflað sér, óraunhæft og hefðu því farið fram á að það yrði endurskoðað en því hefði verið hafnað.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. júlí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í svörum úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að nefndin myndi endurupptaka mál A og B, kæmi fram ósk um það, á grundvelli athugasemda þeirra um verðmat fasteignarinnar og þá yrði aflað álits löggilts fasteignasala á því verðmati sem ákvörðun Íbúðalánasjóðs byggðist á. Umboðsmaður taldi því rétt að ljúka meðferð sinni á málinu en tók fram að ef A og B teldu sig enn beitt rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu í málinu gætu þau leitað til sín á ný. Þá upplýsti umboðsmaður um að hann hefði enn til athugunar almenn atriði varðandi niðurfærslu veðskulda hjá Íbúðalánasjóði og yrði tilkynnt um niðurstöðu þeirrar athugunar á vefsíðu embættisins.

Í tilefni af þeirri afstöðu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála að vafi léki á um hvort rétt væri að svara tilteknum fyrirspurnum umboðsmanns og láta í ljósi viðhorf til efnis máls umfram það sem kæmi fram í úrskurði nefndarinnar ritaði umboðsmaður nefndinni bréf þar sem fram kom að hann teldi þessa afstöðu ekki í samræmi við 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 og þau sjónarmið sem búa að baki lögunum. Umboðsmaður sendi velferðarráðherra afrit af því bréfi og tók fram að hann vænti þess að ráðherra tryggði, á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna, að þær stjórnsýslunefndir og starfsmenn stjórnsýslunnar sem undir hann heyrðu höguðu störfum sínum í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í bréfinu.