Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 7035/2012)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála þar sem staðfest var ákvörðun Íbúðalánasjóðs um endurútreikning á lánum hans og B hjá sjóðnum, þ.e. útreikning á fjárhæð til niðurfærslu veðskuldar. A taldi að útreikninginn hefði átt að miða við fasteignamat en ekki verðmat fasteignar og að annað fæli í sér mismunun þar sem Landsbankinn, sem væri í eigu ríkisins, miðaði sína útreikninga við fasteignamat. Kvörtunin beindist einnig að því að ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir kaupum Íbúðalánasjóðs á íbúðalánum í eigu SPRON en A hefði fremur viljað að lán hans yrðu yfirtekin af Landsbankanum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að heimildir Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja tryggð með veði í íbúðarhúsnæði væru byggðar á lögum, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál, sbr. 11. gr. laga nr. 125/2008, þar sem m.a. hefði komið fram að ekki þyrfti að leita samþykkis skuldara fyrir slíkri yfirfærslu. Í ljósi a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að eftirlit umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis, taldi umboðsmaður sig bresta heimildir til að fjalla um það atriði í kvörtun A. Umboðsmaður benti A einnig á að kaup Íbúðalánasjóðs á íbúðalánum SPRON hefðu átt sér stað utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/997 og því gæti hann ekki fjallað um ákvörðunartöku eða aðra stjórnsýslu í tengslum við samningsgerðina á grundvelli kvörtunar hans. Þá benti umboðsmaður á að í reglugerð nr. 1081/2008, um heimild Íbúðalánasjóðs til að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði, hefði verið gert ráð fyrir því að frumkvæðið að slíkum samningum væri hjá hlutaðeigandi fjármálafyrirtæki en ekki Íbúðalánasjóði.

Hvað varðaði útreikning á fjárhæð til niðurfærslu á veðskuld A og B tók umboðsmaður fram að í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011 kæmi fram að teldi Íbúðalánasjóður skráð fasteignamat fyrir 2011 ekki gefa rétta mynd af verðmæti eignar skyldi hann á eigin kostnað afla verðmats löggilts fasteignasala. Í því ljósi taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefði lagt til grundvallar að heimilt hefði verið að byggja útreikninga í máli A á verðmati. Þá tók umboðsmaður fram að Íbúðalánasjóður væri stjórnvald sem bundið væri af lögum nr. 44/1998 og stjórnvaldsfyrirmælum sem sett væru með stoð í þeim lögum. Landsbankinn væri hins vegar fjármálafyrirtæki sem starfaði á grundvelli laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Um starfsemi þessara tveggja aðila giltu því ólíkar lagareglur og af því leiddi að staða viðskiptamanna þeirra væri að nokkru leyti efnislega ólík. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til frekari umfjöllunar um kvörtunina og lauk málinu.