Lögreglu- og sakamál. Rannsókn máls.

(Mál nr. 6817/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara um að verða ekki við beiðni um að nánar tilgreind mál sem hún hafði leitað með til lögreglu yrðu skoðuð í heild sinni eða gömul kærumál hennar yrðu tekin til endurskoðunar. Þeim málum lauk ýmist á grundvelli 4. mgr. 52. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, þar sem er að finna heimild til að vísa frá kæru ef ekki þykir efni til að hefja rannsókn út af henni eða hætta rannsókn ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, eða 145. gr. laganna þar sem ákæranda er heimilað að fella niður mál ef það sem fram er komið þykir ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af ákvörðun í máli A varð ekki annað ráðið en að ríkissaksóknari hefði lagt efnislegt mat á það hvort gögn, sem A lagði fram með beiðni sinni, hefðu varpað nýju ljósi á málið umfram það sem hafði áður komið fram. Hins vegar hefðu þau ekki verið talin ný sakargögn í skilningi 3. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 og því hefði skilyrðum ákvæðisins til endurupptöku rannsóknar ekki verið talið fullnægt. Með tilliti til þess svigrúms sem ríkissaksóknari hefur til töku matskenndra ákvarðana taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að embættið hefði dregið óforsvaranlegar ályktanir af fyrirliggjandi gögnum í málinu. Enn fremur taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu ríkissaksóknara að í fylgiskjölum með beiðni A hefði ekki verið að finna gögn sem styddu tilteknar staðhæfingar hennar um refsiverða háttsemi. Þá fékk umboðsmaður ekki annað séð en að rétt væri hjá ríkissaksóknara að í gögnunum væri ekkert sem styddi að A hefði verið meinaður aðgangur að gögnum.

Í skýringum ríkissaksóknara til umboðsmanns var viðurkennt að þau mistök hefðu verið gerð að halda ekki eftir afriti af tilteknum gögnum sem A sendi með beiðni sinni og að það hefði ekki samrýmst 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar út af því atriði.

Að lokum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugsemdir við það mat ríkissaksóknara að ljósmyndir sem A lagði fram teldust ekki ný sakargögn í skilningi laga þar sem hún hefði ekki kært atvikin sem tengdust myndunum sem líkamsárás og eignarspjöll á sínum tíma. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að hann gæti ekki byggt á fullyrðingu A um að hún hefði lagt fram kæru vegna atvikanna þar sem hún hefði ekki lagt fram gögn sem renndu stoðum undir þá fullyrðingu og þar sem ekki voru forsendur til að vefengja orð ríkissaksóknara þar að lútandi. Með vísan til alls þessa taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtuninni og lauk umfjöllun sinni um hana.