Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 7088/2012)

A kvartaði yfir viðbrögðum lögregluembættis við beiðni hans um aðstoð við að hafa uppi á dóttur sinni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti að þrátt fyrir að foreldrar ættu lögum samkvæmt rétt á því að umgangast börn sín og eiga við þau samskipti ættu þau réttindi aðeins við þegar um væri að ræða börn yngri en 18 ára. Af erindi A varð ekki annað ráðið en að dóttir hans hefði þegar náð 18 aldri og að hann ætti því ekki á grundvelli laga kröfu um atbeina stjórnvalda til að umgangast hana og eiga við hana samskipti. Af því leiddi jafnframt að engin skylda hvíldi á lögreglu til að ljá honum atbeina sinn við að ná fram slíkri umgengni. Umboðsmaður taldi sig því ekki geta gert athugasemdir við viðbrögð lögreglu við beiðni A um aðstoð og taldi ekki efni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni.