Matvæli.

(Mál nr. 7051/2012)

A ehf. kvartaði yfir fyrirkomulagi við eftirlit Matvælastofnunar með innflutningi fæðubótarefna. Í kvörtuninni kom m.a. fram að A ehf. væri ósátt við að Matvælastofnun gerði fyrirtækinu að afhenda Lyfjastofnun vöru sem flutt væri inn á vegum fyrirtækisins og greiða kostnað af eftirliti stofnunarinnar. A ehf. taldi eðlilegra að Matvælastofnun kallaði eftir áliti Lyfjastofnunar og þá án kostnaðar fyrir innflytjandann. Þá gerði A ehf. athugasemdir við gjaldtöku Lyfjastofnunar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að í lögum nr. 93/1995, um matvæli, væri byggt á að Matvælastofnun annaðist opinbert eftirlit á grundvelli laganna, m.a. með því að hafa eftirlit með því að bann sem lagt væri við innflutningi fæðubótarefna sem innihalda lyf væri virt. Samkvæmt lögunum væri það hlutverk Lyfjastofnunar að skera úr um hvort fæðubótarefni teldist innihalda lyf ef vafi léki á því. Umboðsmaður tók fram að almennt væri það ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að fjalla um hvernig til hefði tekist með löggjöf, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Hann taldi því bresta lagaskilyrði til að fjalla um þau atriði í kvörtun A sem lutu að því hvernig eftirlitshlutverk Matvælastofnunar og Lyfjastofnunar væri afmarkað í lögum.

Umboðsmaður tók jafnframt fram að samkvæmt 5. mgr. 3. gr. lyfjalaga nr. 93/1994 hefði Lyfjastofnun heimild til gjaldtöku fyrir mat á skaðleysi fæðubótarefna og náttúruvöru og að velferðarráðherra hefði útfært þá heimild með gjaldskrá. Umboðsmaður benti A ehf. að ef félagið teldi þá útfærslu ekki reista á fullnægjandi heimild í lögum ætti hann þess kost að bera upp erindi þar að lútandi við velferðarráðuneytið.

Að lokum tók umboðsmaður fram að af erindi A ehf. yrði ekki séð að félagið hefði borið atriði varðandi framkvæmd eftirlits með innflutningi fæðubótarefna af hálfu Matvælastofnunar undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, sbr. 5. gr. laga nr. 93/1995, og af hálfu Lyfjastofnunar undir velferðarráðherra, sbr. 2. gr. lyfjalaga nr. 93/1994. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A ehf. freistaði þess áður en málið kæmi til umfjöllunar hjá sér. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að A ehf. ætti þess kost að leita til sín á ný að fenginni niðurstöðu viðeigandi ráðuneytis málinu.