Menntamál. Framhaldsskólar.

(Mál nr. 7067/2012)

A kvartaði yfir því að dóttir sín hefði ekki fengið skólavist við nánar tilgreinda framhaldsskóla þrátt fyrir að hafa hlotið meðaleinkunnina 8,7 í grunnskóla.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að leita fyrst með erindi sitt til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sbr. 3. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla. Í því sambandi vakti umboðsmaður athygli A á að ef ákvarðanir skólameistara um að synja dóttur hennar um skólavist yrðu taldar falla undir ákvæði 2. mgr. 33. gr. laga nr. 92/2008 kynni hún að eiga þess kost að skjóta hlutaðeigandi ákvörðunum til mennta- og menningarmálaráðuneytisins með stjórnsýslukæru. Umboðsmaður tók þó ekki afstöðu til þess hvort ákvæðið ætti við enda taldi hann rétt að afstaða ráðuneytisins til þess lægi fyrir áður en hann fjallaði nánar um það. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að bera erindi sitt undir mennta- og menningarmálaráðuneytið ætti hún þess að sjálfsögðu kost að leita til sín á ný að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins í málinu.