Sjávarútvegsmál.

(Mál nr. 7019/2012)

A kvartaði yfir því að sú aðferð sem lögð væri til grundvallar við úthlutun afla til strandveiða fæli í sér að jafnræðis væri ekki gætt. Í því sambandi benti hann á að úthlutun aflans væri fram áður en bátar á hverju úthlutunarsvæði fyrir sig hefðu sótt um veiðileyfi og það hefði í för með sér að meðalafli á bát væri ólíkur. A taldi eðlilegast bátar sæktu um veiðileyfi áður en kvótanum væri úthlutað og að heildarbátafjöldanum væri síðan deilt í úthlutað heildaraflamagn og það margfaldað með bátafjölda á hverju úthlutunarsvæði.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi að af orðalagi 2. mgr. 6. gr. a í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, yrði ráðið að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefði talsvert svigrúm til að útfæra fyrirkomulag um úthlutun afla til strandveiða. Með tilliti til þess og í ljósi sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A leitaði til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og fengi skriflega afstöðu ráðuneytisins til kvörtunar sinnar og upplýsingar frá ráðuneytinu um það á hvaða sjónarmiðum ákvæði reglugerðar nr. 206/2012, um strandveiðar fiskveiðiárið 2011/2012, byggðist, en þar var mælt fyrir um aðferð við úthlutunina. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar út af kvörtuninni en tók fram að A gæti leitað til sín á ný ef hann teldi teldi úrlausn ráðuneytisins á málinu ekki viðunandi.