Sjávarútvegsmál.

(Mál nr. 7045/2012)

A kvartaði yfir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði ekki fallist á að veita útgerðaraðilum sem hann fór með umboð fyrir undanþágu frá því skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta að landa bæri tilteknu magni aflamarks til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlags. Í kvörtun A kom m.a. fram að ástæða þess að óskað var eftir undanþágunni væri að ekki hefðu náðst viðunandi samningar við fiskverkun í byggðarlaginu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður vísaði til þess að hann hefði nýlega lokið athugun sinni á máli sem laut að sambærilegu álitaefni, sbr. mál nr. 6784/2011, og komið tilteknum ábendingum á framfæri við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið af því tilefni vegna annmarka sem hann taldi vera á reglugerðarákvæðum um úthlutun byggðakvóta. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunar A. Hann ákvað hins vegar að rita sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu bréf og benda því á að hafa einnig kvörtun A í huga þegar tekin væri ákvörðun um hvort brugðist yrði við ábendingum í máli nr. 6784/2011. Þá vakti umboðsmaður athygli A á því að ef útgerðirnar teldu sig hafa orðið fyrir tjóni vegna annmarka á 7. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012, yrði að leysa úr því á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og þá um hugsanlega skaðabótaskyldu ríkisins. Það yrði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um slíkt.