Skaðabætur. Sanngirnisbætur.

(Mál nr. 7044/2012)

A og B leituðu til umboðsmanns Alþingis og spurðu hvort brotið væri gegn jafnræðisreglu með því að þeir sem dvöldu á vistheimilum á vegum ríkisins fengju greiddar bætur á þremur árum en konur sem talið væri að biskup hefði áreitt fengju eingreiðslu bóta af þeim sökum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. júlí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að fjallað væri um útgreiðslu sanngirnisbóta í 4. mgr. 4. gr. laga nr. 47/2010 og að þar kæmi m.a. fram að bætur umfram 4 millj. kr. og allt að 6 millj. kr. skyldi greiða út 36 mánuðum eftir fyrstu greiðslu. Alþingi hefði því tekið afstöðu til þess hvernig skyldi háttað útgreiðslu bótanna. Þar sem starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-liður 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður ekki skilyrði að lögum til að taka kvörtunina til frekari meðferðar og lauk athugun sinni á málinu.